18.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

18. mál, borgaralegt hjónaband

Kristinn Daníelsson:

Eg hefi beðið um orðið af því að mitt nafn er á breytingartill., sem hér liggur fyrir, enda þótt eg þykist mega líta svo á, að breytingin sé borin fram fyrir hönd allrar háttv. deildar og í samræmi við skoðun flestra háttv. deildarmanna. Eg held að allir háttv. deildarmenn og líklega mikill meiri hluti alls þingsins, sé sammála um það, að ákvæðið, sem farið er fram á að felt verði burt, sé hjáróma rödd við öll ákvæði um sams konar efni, og ákvæðið mjög óviðkunnanlegt og óþarft, úr því að ekkert sams konar ákvæði gildir um skyldu presta í þessum efnum, sem hér er um að ræða. Því vil eg leggja það til, að háttv. deild samþykki breytingartillöguna.