18.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

18. mál, borgaralegt hjónaband

Lárus H. Bjarnason:

Eg játa það, að 2. liður greinarinnar (á þgskj. 217) er óþarfur. En hann er líka meinlaus. Og því finst mér ekki ástæða til að leggja svo mikið kapp á að fá hann feldan, að málið verði látið koma fyrir sameinað þing fyrir þá sök eina. Enda getum vér efrideildarmenn ekki komið breytingartill. fram, ef neðri deild heldur fast við sinn keip; vér höfum ekki bolmagn til þess. — Eg vil ennfremur benda á það, að það er fleira í þeim hluta greinarinnar, sem ætlast er til að verði feldur niður, heldur en ákvæðið um skyldu valdsmanns að taka til greina óskir hjónaefnanna. Þar er líka ákvæði um, hvernig ferðakostnaður valdsmanns skuli greiðast.

Mér finst atriðið svo lítilsvert, að það sé ekki gerandi að kappsmáli milli deildanna.