22.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Steingrímur Jónason:

Það var að eins lítið eitt, sem eg ætlaði að taka fram. Það mátti ráða það af ræðu framsögum., að nefndin í heild sinni er á móti breytingum. Eg er í ýmsu á öðru máli en hún. Vil eg þar t. d. minnast á eitt atriði. Það er styrkveitingin til Jóh. skálds Sigurjónssonar. Háttv. 6. kgk. lét í ljósi við 2. umr., að hann teldi þessa styrkveitingu réttmæta. Þessu er eg gjörsamlega samþykkur. Eg er í fyrsta lagi þeirrar skoðunar, að Jóhann Sigurjónsson eigi þessa umræddu styrkveitingu skilið. Leikritið »Bóndinn á Hrauni« sýnir ótvíræðilega, að hér er fram komið skáld, sem margs og mikils má af vænta. Háttv. framsögum. kallaði hann danskan höfund. Þessu leyfi eg mér að mótmæla gjörsamlega. Ef þjóð vor á nokkum höfund sannarlega íslenzkan, þá er það Jóhann Sigurjónsson. Hann er af íslenzku bergi brotinn og það af góðu bergi; og má það kunnugt vera. Þess utan sýnir hið síðasta leikrit hans, sem eg nefndi, »Bóndinn á Hrauni«, að þar slær íslenzkt hjarta á bak við. Þar er maður, sem kann að fara með íslenzk efni, svo að unun er að. Það getur verið, að hann sé nefndur danskur höf. af því að hann skrifar dönsku betur en flestir Íslendingar, sem það hafa reynt, eins og hann hefir sýnt í fyrsta leikriti sínu »Dr. Rung«.

Ekki get eg fundið, að nokkur sanngirni mæli með því, hvernig sem á er litið, eins og háttv. 6. kgk. tók fram, að Guðmundur Friðjónsson sé gerður hálfdrættingur á við Guðm. Guðmundsson. Þar er eg honum algjörlega samþykkur; slíkur munur veit eg ekki á hverju ætti að byggjast, nema á vanhyggju einni. Að vísu skal eg kannast við þá skoðun mína, að kærast væri mér ef til vill, að allir þessir styrkir væru burt feldir. En úr því hinn kosturinn er nú tekinn á annað borð, þá findist mér það æskilegast, að Guðm. Guðmundsson væri lækkaður niður í 300 kr. heldur en hitt, að Guðm. Friðjónsson sé hækkaður. En munurinn, sem nefndin vill gjöra á þeim, byggist ekki á neinni sanngirni.

Út af ræðu háttv. 6. kgk. þm., sem vill hækka styrkinn til kenslubókaútgáfu upp í 2000 kr., þá skal eg taka það fram, að eg er þessu ósamþykkur. Get þó ekki flutt breytingartillögu þess efnis; álít réttara, að atkvæðagreiðslan sýni það.

Hvað frumvarpið í heild sinni snertir, þá stendur þar í 20. gr., að tekjuhallinn sé kr. 188,230,33, en einnig, að hann eigi að jafnast með tollhækkunarlögum. Nýtt, að skila fjárlögunum með tekjuafgangi. Efri deild sendi fjárlögin til neðri deildar með tekjuafgangi. Um þetta er það að segja, að sé fjárlögunum skilað af sér með tekjuafgangi og tollhækkunin verði að lögum, þá verður tekjuafgangurinn, sem vér eigum að reikna með, að minsta kosti 300þús. kr. á fjárhagstímabilinu með því móti; og má það eftir ástæðum kallast ekki svo lítill afgangur. Eg er þess fullviss, að ekkert löggjafarþing í víðri veröld út býr fjárlög sin á þann hátt. En ærið athugavert finst mér þetta ráðlag vera. Svo hyggilegt sem það kann að virðast, að láta útgjöld ekki fara fram úr tekjum, svo varhugavert getur það og verið, ef löggjafarvaldið leggur áherzluna á sparnaðinn einan. Það er skylda löggjafarvaldsins, að halda uppi þeim framkvæmdum og umbótum, sem þegar hefir verið á byrjað; og er allur sparnaður, sem veldur stórfeldum töfum og tálmunum á framfaraþraut landsins, bein vanræksla hinnar mikilvægustu og fremstu skyldu í þessu efni. Sé nú borið saman þetta tvent: fjárlagafrumvarp stjórnarinnar og álit nefndarinnar, þá sést það, að mismunurinn á tekjuhallanum er 172 þús. kr. Og hefir sá mismunur fengist með því einu móti að fella burtu 200 þús. kr. til einhverra hinna mestu nauðsynjafyrirtækja, sem og mátti vænta að gæfu hinn bezta arð. Á eg þar við t. d. Vestmanneyjasímann og Rangárbrúna, sem hvorttveggja voru hin nauðsynlegustu og arðvænlegustu fyrirtæki. Slíkur sparnaður er ekki einungis ekki gagnlegur eða þarflegur, heldur og beint skaðlegur og hættulegur. Hann er brot á skyldum löggjafarvaldsins við þjóðina. Er það því bæði ósk mín og áskorun til háttv. deildar, að hún bæti sem bezt úr þessu misráðna ráðlagi, og gæti hins minna, að reyna að spenna tekjuafganginn sem hæst upp.