23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

20. mál, fræðsla barna

Framsögumaður (St. Stefánsson 6. kgk.):

Eg hefi leyft mér að koma fram með breytingartillögur við þetta frumv., ásamt 2 öðrum háttv. þm. Það er ekki efnisbreyting, en að eins til skýringarauka á því, sem meint er í síðustu málsgrein 5. gr. Það stendur svo í þessari málsgrein nú, að skólanefnd geti krafist að bætt sé úr, ef henni í »þykir eitthvað áfátt við bygginguna«. Þetta orðalag er nokkuð ógreinilegt, en breytingartillagan miðar til þess að það komi skýrt fram, að það sé aðeins átt við það, er skólahús er ekki bygt samkvæmt uppdrætti og lýsing yfirstjórnar fræðslumála. — Eg vona að háttv. deild fallist á þessa breytingu.