15.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

21. mál, vígslubiskupar

Sigurður Stefánsson:

Frumvarp þetta er komið frá Nd., og hefir þar gengið gegnum margskonar hreinsunareld. Tildrög þess eru þau, að stjórnin lagði, eftir tillögu biskups, fram frumvarp er fór í þá átt að skipa skyldi einn varabiskup, til þess að biskupsvígsla gæti ávalt farið fram hér á landi og biskup þyrfti ekki að sigla til að fá vígslu. Nd. hefir farið feti framar, þar sem hún hefir samþykt að þeir skuli vera tveir. Eg get að ýmsu leyti verið þessu samþykkur, en samt álít eg frumvarpinu vera þannig varið, að rétt sé að athuga það frekar í nefnd. Mér hefir komið til hugar að því mætti vísa til prestalaunanefndarinnar, og geri eg að tillögu minni að svo verði gert að loknum umræðum.