27.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

21. mál, vígslubiskupar

Lárus H. Bjarnason:

Eg verð enn sem fyrri að líta svo á, að biskup sé óþarfur á landi hér, varabiskup enn óþarfari, en tveir varabiskupar þó óþarfastir. Biskup er nú sem stendur ekki annað en skrifstofustjóri utan ráðuneytisins, og fyrir það starf er alt of hátt að launa hann með 5000 kr. auk 1000 kr. skrifstofufjár. En enn minni nauður rekur til þess, að lögleiða nú 2 vígslu- eða varabiskupa. Og þótt ekki sé ætlast til þess að mennirnir verði launaðir fyrst í stað, býst eg við að þeir fengju laun síðar. Eg sé ekki betur en að setja mætti prestvígðan mann «ad hoc«, til þess að vígja biskupa. Það hefði átt að gjörast í haust, ef fráfarandi biskup hefði ekki getað framkvæmt vígsluna.

Mér sýnist þetta því alveg óþarft; við höfum nú um langan tíma komist af án varabiskupa og svo munum vér enn geta. Komist þetta á, verður að hafa 2 dómkirkjur, en mér finst að heldur ætti að halda eina vel, en stofna til annarar, meðan Reykjavíkurkirkja er jafn-illa haldin og raun ber vitni um.