27.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

21. mál, vígslubiskupar

Kristinn Daníelsson:

Það kann líklega að þykja, að sá höggvi er hlífa skyldi, þegar eg stend upp til þess að gera athugasemdir við þetta frv., og hefi þó skrifað undir nefndarálitið, — reyndar með fyrirvara. Eg komst í þessa nefnd í stað háttv. þm. G.-K, sem gegnir forsetastörfum í fjarveru forseta. Störfum var þá að mestu lokið í nefndinni, og eg gat ekki haft þau áhrif, sem eg hefði óskað. Eg skal geta þess, að eg er sammála nefndinni í öllum aðalatriðum, sem mestu skifta, að það er gott og þjóðræknislegt að þurfa ekki að sækja biskupsvígslu utan. Eg er á móti því sem háttv. 5. kgk. sagði um biskupsembættið, að það væri beinlínis óþarft, og ekki annað en skrifstofustjórastörf fyrir utan ráðuneytið. En biskupsembættið er miklu meira, og það má heita að í því felist eini vísirinn til þess, að kirkjan ráðstafi sjálf málum sínum, og biskup á að sjálfsögðu að vera úr þeirri stétt. Eg er með nefndinni í því, að eg vil ekki að þetta falli, og eins um hitt, að eg vil að greinar skiftist eins og gert er. En svo greinir okkur á um ýms atriði. Fyrst og fremst um það, að vígslubiskupar skuli vera tveir. Það er bæði gott og ekki gott. Það er gott að því leyti sem ætlast er til, að það verði vegsauki fyrir kirkjuna og viðrétting fyrir Norðlendinga og hið gamla Hólastifti, enda þótt eg efist um að svo muni verða. En á hinn bóginn felli eg mig ekki vel við, að þessum mönnum er báðum ætlað að taka biskupsvígslu; mér líkar þetta miður, og vil taka undir með háttv. 5. kgk. þm., að slíkt er ekki nauðsynlegt til þess að vígja aðra. Eg hefi ekki með þessu á móti biskupsvígslu, því að hún er merkileg athöfn, og mér dettur ekki í hug að gera lítið úr henni. En kaþólskir menn og Prótestantar líta sínum augum hvor á biskupsvígsluna. Fyrir kaþólskum er »successionin« aðalmálið, en vér leggjum enga áherzlu á slíkt. Biskupsvígsla og sérhver vígsla er hátíðleg athöfn, sem er inngangur þess, að maður hefji mikilvægt starf æfilangt, og mér þykir það að gera lítið úr biskupsvígslunni, að setja hana á menn, sem sennilega aldrei gera nein biskupsverk. Eg vil halda hlífiskildi yfir hátíðleik athafnarinnar; þess vegna er eg mótfallinn þessu atriði. Og eg býst líka við, að margir mundu kynoka sér við að taka við biskupsvígslu til einskis. Eg hefði felt mig við, að vígslubiskupinn hefði verið einn, eins og upphaflega var ákveðið, því að einn varabiskup gæti þó gert ráð fyrir að verða að framkvæma einhver biskupsstörf.

Eg skal svo að eins víkja að einstöku smáatriðum. Eg hefði heldur viljað, að ákveðið hefði verið að vígslubiskuparnir skyldu vera kosnir af prestastéttinni, í stað þess að vera skipaðir eftir tillögum hennar. Í stað vígslukostnaðar vildi eg láta þessa upphæð vera ákveðna sem heiðurslaun eða viðurkenning, sem væri sýnd prestaskörungum, enda þótt engin vígsla færi fram. Ennfremur þykir mér óviðkunnanlegt, að borga framkvæmd biskupsvígslu eftir reikningi. Það mátti gjarnan vera — og það var betra — sæmileg upphæð, sem hefði verið föst þóknun.

Eg vildi helst að þessu yrði breytt, en mun þó verða með frv., þó breytingar verði ekki gerðar.