04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Nefndin hefir gert töluverðar breytingar við frumv. að þessu sinni, en mörgum þeirra er svo varið, að nefndin gat ekki vegna hins stutta tíma látið uppi skoðun sina á þeim í nefndarálitinu. — 20. gr. frv. er aflagislega úr garði gerð, því svo var til orða tekið, að jafna skyldi tekjuhallann með tollaukalögum, sem lögð höfðu verið fyrir þingið. Nú er þetta frumv. orðið að lögum, og lægi því beinna við að vísa til þeirra sem staðfestra laga. En þar af leiddi að taka varð tekjuaukann upp í frumvarpið; nefndin var í fyrstu í vafa um hvað hún ætti að gera, en kom sér þó saman um, að það væri réttast að hækka tilsvarandi tekjuliði í 2. gr., sem samsvaraði þeirri tekjuhækkun, sem hún áleit að mundi fást af tollaukanum. Fyrsta br.till. nefndarinnar er því við 2. gr., og er um það, að áfengistollurinn sé hækkaður úr 190000 upp í 280000 kr. hvort árið; það er þannig gert ráð fyrir 90000 kr. tekjuauka af þessum lögum. Ef hækkunin væri miðuð við aðflutninginn á áfengum drykkjum seinustu 3 árin, þá ætti hækkunin að vera meiri, nfl. 160000 kr., en nefndin gengur út frá, að tollaukalögin hafi minkandi áhrif á aðflutninginn, og þar að auki er hér mikið komið undir árferði og öðrum atvikum, sem er svo varið, að þau knýja til sparnaðar, en sá sparnaður hlýtur að koma mest niður á þeirri vöru, sem menn geta bezt án verið. Nefndinni þótti því ekki ráðlegt, að miða við þriggja undanfarinna ára aðflutning, og þótti hæfilegt að ákveða hækkunina á þessum lið 90000 kr.

Sama er að segja um tóbakstollinn, að nefndinni þótti ekki ráðlegt að hækka hann að sama skapi og gjöra ætti, ef miðað væri við 3 undanfarin ár, en sú hækkun yrði 67 þús. kr. á ári. En nefndin leggur til að í þess stað verði hækkunin á þessum lið áætluð 27 þús. kr. lægri, nfl. 40 þús. kr. og sá liður (tóbakstollurinn) því allur 180 þús. kr. í stað 140 þús. En þó þessi liður sé ákveðinn 27 þús. kr. lægri en eftir þriggja ára meðaltalinu, þá er liðurinn »annað aðflutningsgjald«, sem í frumv. er ákveðinn l7 þús. kr., af nefndinni hækkaður um 8 þús. kr. upp í 25000 kr. hvort árið. Það má að nefndarinnar skoðun gera ráð fyrir, að minni rýrnun verði á þessum síðasta lið vegna tollhækkunarinnar en hinum fyrnefndu liðum, einkum þegar litið er til þess, að tolluð er ný vara, sem fellur undir hann, nfl. kakaó.

Hækkun nefndarinnar nemur því:

Á vínfangatolli 90.000 kr.

á tóbakstolli 40.000 —

á »annað aðf.gjald« . . . 8.000 —

Samtals 138.000 kr.

Þegar þetta er borið saman við tollaukafrumv. stjórnarinnar, sést að stjórnin að vísu fer eftir aðflutningnum um 3 undanfarin ár, og áætlar tekjuaukann um 240 þús. á fjárhagstímabilinu, en þó álítur hún, eins og nefndin, það varlegra að ákveða ekki upphæðina svona háa og dregur 30% frá. En nefndin vill fara enn varlegar í sakirnar og ákveður því tekjuaukann 22 þús. krónum lægri en þessi lækkaða áætlun stjórnarinnar.

Eg hygg nú að eg hafi í nefndarinnar nafni gjört grein fyrir hækkuninni á þessum liðum og fyrir ástæðu hennar til þess, nfl. orðalaginu á 20. gr. Þessu líku hefir verið fylgt á þingi áður, svo hér er fordæmi fyrir.

Þá eru breyt.till. nefndarinnar á þskj. 710; fyrir þeim er að mestu gerð grein í nefndarálitinu, svo eg get verið stuttorður um þær. Eg hirði ekki að tala um einstök atriði, því að eg treysti því að háttv. deild hafi ekki breytt skoðun sinni á málinu. Ástæðumar hafa að engu leyti breyzt í þá átt, að fara fram á svo mikla hækkun, sem hér ræðir um.

Næsta breyt.till. er á þskj. 710 við 13. gr. c. 2. Nefndin leggur til, að þessi liður verði færður úr 45 þús. kr. niður í 39 þús. kr. hvort árið. Það er gerð grein fyrir þessari lækkun í nefndarálitinu. Þar sem sérstakur bátur á að ganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reykjavíkur, þá sýnist ekki þörf á að veita 12000 til Austfjarðabátsins. Í sambandi við þetta hefir nefndin lagt það til, að Norðurlandsbáturinn fá 12000 kr. í stað 6000, og er honum þá ætlað að ganga frá Húnaflóa til Seyðisfjarðar, og hafa miðstöð á Akureyri. Nefndinni virtist þessi upphæð, 12000 kr., ekki of há, en jafnframt ætlast hún til, að stjórnarráðið semji ferðaáætlun fyrir bátinn, eða samþykki hana.

Þá er breyt.till. við 13. gr. D. H. 2. Nefndin hafði upprunalega fært þennan lið úr 10 þús. niður í 5 þús. kr., en fékk þá upplýsingar hjá símastjóranum um, að þessi upphæð væri með öllu ónóg, og hefir því lagt til, að liðurinn verði hækkaður aftur um 2000 kr., enda hefir hún náð þessum 2000 með því að færa D. VI. niður að sama skapi úr 10000 kr. í 8000. Nefndin áleit að þessar 8000 kr. mundu nægja til viðhalds landsímanna, og það því fremur, sem mjög lítið er um nýjar línur á þessu fjárhagstímabili. Þetta er því engin hækkun á frv., heldur aðeins jafnaður.

Næst er breyt.till. við 13. gr. E. I. a. Eftirlitsmaður vitanna fæst ekki til að taka verkið að sér fyrir þá upphæð sem Ed. hafði ákveðið. Nd. hækkaði því launin um helming. Nefndin hér í Ed. verður þó að líta svo á, að þessi maður sé svo vel launaður af landsjóði, að upphæð Ed. hefði átt að vera næg tekjuviðbót. Nú vill nefndin þó fara meðalveg, og hækka um 200 kr. frá því er hún varð ásátt um fyrra sinnið.

Svo kemur að 15. gr. Fyrst er breyt- tll. við 14. lið um að færa styrkinn til þess, að gefa út rit um þjóðréttarstöðu Íslands, úr 5000 kr. niður í 2500. Eg skal ekki fjölyrða um þessa breyt.till., en aðeins geta þess, að ástæður nefndarinnar eru þær sömu nú, sem fyrri daginn.

Svo kemur að þessum styrkveitingum, sem eg vil einu nafni kalla orðabókarstyrki. Meiri hluti nefndarinnar hefir lagt til, að færa styrkinn til Jóns ritstjóra Ólafssonar úr 1500 kr. niður í 960 kr. eins og áður var gert, og styrkurinn til Jóns Ófeigssonar ræður hún til að sé alveg feldur burt. Það var tekið fram um daginn, að það væri minst nauðsyn á þýzk-íslenzkri orðabók, því að allflestir, sem stunduðu þýzkunám kynnu áður dönsku, og gætu því notað þýzk-danskar orðabækur. Nefndin verður líka að álíta, að hér sé um mjög svo óarðvænlegt fyrirtæki að ræða, þar sem öll líkindi eru til, að forleggjari mundi aldrei fást til að gefa bókina út. En eigi liðurinn að standa, þá er það óforsvaranlegt, að hann sé engum skilyrðum bundinn né fjárveitingarvaldinu gefin nokkur trygging fyrir því að verkið verði unnið.

Hvað snertir breyttill. við 16. gr. 5., þá hefir nefndin haldið fast við skoðun sína um það atriði. Hún lítur svo á, að 500 kr. verði að vera nógur styrkur í bráð. Það má vel vera að eitthvert gagn geti verið að þessum skóla, en nefndin vill þó ekki leggja fram meira fé að þessu sinni. Það er hvort sem er sennilegt, að leitast verði við að hækka liðinn síðar.

Þá kem eg að 12. br.till., sem er við 16. gr. 11. Nd. hafði lækkað þennan lið til sandgræðslu um 500 kr. En nefndinni hér var ekki ljóst hversvegna hún hafði gert það, og áleit því rétt að hækka liðinn aftur eins og hann var á frv. stjórnarinnar.

Síðasta br.till. er við 22. gr. 10. Hún er viðvíkjandi byggingarláninu til Björgvins sýslumanns Vigfússonar. Nefndinni þótti hækkunin óþörf og sýnist 4000 kr. lán fullgott, þar sem ekki á nota það til annars en að byggja eitt íbúðarhús. Annars er nefndin í miklum vafa um hvort rétt sé að veita sýslumönnum slík lán. Það er fyrirsjáanlegt, að ef byrjað er á slíku, þá munu embættismenn koma í hópum með samskonar lánsbeiðnir. Og það er öll ástæða til þess að fara varlega út í lánveitingar að svo stöddu, þó mönnum sýnist nægar tryggingar vera gefnar. Eg vil í sambandi við þetta geta þess, að mér sýnist 22. gr. í heild sinni hreinasta hneyxli, því að nú er svo lítið fé fyrir hendi sem hægt er að lána, að það mundi sennilega ekki nægja til l/10 af því sem lofað hefir verið. Þessar lánveitingar gera því ekki annað en að vekja vonir hjá mönnum, sem svo ekki geta ræzt. Eg skal ennfremur taka það fram, að engin flokkun hefir verið gerð á þessum lánveitingum; þær eru ekki veittar eftir neinum reglum eða eftir nauðsyn, svo að það er viðbúið að þær muni koma stjórninni í vanda. Lánbónir hafa aldrei komið svo margar til þingsins sem nú. Það má heita að hver þingmaður gangi með lánbeiðni í vasanum. Eg skal svo ekki lengja umræðurnar frekar, en kann að taka aftur til máls seinna.