21.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

24. mál, kornforðabúr

Framsm. (Kristinn Daníelsson):

Við sem höfum verið valdir í þessa nefnd, höfum orðið vel sammála, og höfum íhugað málið nákvæmlega. Höfum við fyrst og fremst athugað, hvort á slíkum kornforðabúrum mundi nokkur þörf, og hvort þau mundu ekki jafnvel verða til ógagns; það hefði helzt verið að því leyti, að menn kynnu að hafa sett traust sitt um of til slíks forðabúrs og ekki gætt sín í vitund þess sem skyldi í ásetningi peningsins. — Við höfum þó komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sé ástæða til að bera kvíðboga fyrir slíku, því landsmenn mundu það langt komnir í búnaðarhyggindum, að ekki muni koma til slíks. En það álítum við ætti að vera aðalreglan, að framfleyta öllum peningi á innlendu fóðri. Vér hyggjum og, að landsmenn séu það langt komnir í ásetningu, að sjaldan þyrfti að koma til slíks forðabúrs, og kynni mönnum þá að þykja þetta nýmæli að því leyti óþarft. Því það má fá útlent fóður bæði sunnanlands og norðan. Og þegar harðir eru vetrar fram að jólum, væri alveg nægur tími til að panta fóður, svo að enginn bagi þyrfti af að hljótast. En þrátt fyrir þetta ræður þó nefndin eindregið til að þessi forðabúr verði á stofn sett. Og stuðlaði sérstaklega að því það, að við vissum að slíkt forðabúr hafði verið stofnað í Þingeyjarsýslu og reynst þar vel. Það má vel vera, að nokkuð sérstaklega standi þar á; en okkur finst þó, að slíkt muni geta átt sér stað víðar. Einkanlega er það athugandi, að þegar svo bæri undir gæti komið til greina, að nokkuð af korni því, sem forðabúrin hefðu inni að halda, mætti hafa til manneldis. Gæti slíkt orðið töluvert hagræði í ýmsum tilfellum. — Læt eg því í ljósi það álit mitt í málinu, að nýmæli þetta sé í engu tilliti til ógagns, en gæti orðið í ýmsu til mjög mikils gagns. — Frágangurinn á frumvarpinu hygg eg ekki sé athugaverður. í þriðju grein standa orðin: »óbreytt að efni«; þar hefði eg heldur óskað að staðið hefði: »óbreytt að öllu«. Það er í því efni mjótt mundangshófið; sé farið að breyta formi, er hætt við að efni breytist að einhverju um leið. Að vísu gæti fleira orðið ágreiningsatriði; en þó hygg eg, að eg hafi nú tekið flest fram, sem eg álít bráðasta þörf; og skal eg ekki þreyta menn með langri ræðu um sinn. Lýk eg þar máli mínu, að eg mæli með frumv. við háttv. deild, að hún samþykki það.