29.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Framsögum. (Jósef Björnsson):

Eg get fallist á athugasemdir háttv. þm. Ísf. um leiðréttingu á ritvillunni í 1. gr. frumv. Nefndin mun taka þær til greina.

Um það er háttv. 4. kgk. þm. sagði þarf eg ekki að fara mörgum orðum. Hann játaði að kosningarréttur hjúa væri í sjálfu sér eðlilegur, en áleit betra að leysa vistarbandið. En þó það væri gert, mundu margir ráða sig sem hjú samt sem áður, og hefðu þeir þá ekki kosningarrétt, svo að það kæmi ekki að fullum notum. Um það gæti og verið skoðanamunur, hvort núverandi kringumstæður leyfa að leysa vistarbandið til fulls. Um það skal eg ekki deila, enda liggur það mál ekki fyrir hér. En eins og nú stendur á, er það fullkomlega réttmætt, að hjú hafi þennan kosningarrétt í sveitamálum og bæjarmálum. Þau bera víða töluvert af gjöldum til sveita, og úr því sú skylda hvílir á þeim, að leggja fram sinn skerf til sveitarþarfa, er það eðlilegt að þau hafi atkvæðisrétt í málefnum sveitanna.

Sami háttv. þm. sagði, að það væri nauðsynlegt, að tekið væri fram í lögunum, að hjú væru ekki skyldug að taka við kosningu. Vinnukonur gætu, sem aðrar konur, skorast undan, svo að það gæti aðeins komið til tals um vinnumenn, en af þeim myndu þeir einir verða kosnir, sem samið gætu við húsbændur sína um að mega taka við kosningu. Samt hefir þessi athugasemd háttv. þm. töluvert til síns máls, og nefndin finnur vafalaust ástæðu til að yfirvega, hvort ekki væri rétt að láta vinnumenn hafa undanþágurétt eins og vinnukonur.