29.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Sigurður Hjörleifsson:

Mér sýnist allir vera sammála um það, að húsbóndi geti samkvæmt hjúalögunum bannað hjúi að neyta kosningarréttar síns. Hv. 4. kgk. þm. áleit bezta ráðið vera að leysa vistarbandið. Mér finst það einfaldast, að setja inn í þessi lög ákvæði um, að húsbóndi geti ekki neitað hjúi að nota kosningarrétt sinn. Það liggur í hlutarins eðli, að það verður, um leið og rétturinn er gefinn, að tryggja að hjúin geti neytt hans. Víða er kosningardagur jafnvel skoðaður frídagur.

Eg vil skjóta því til nefndarinnar, hvort hún vill ekki taka þessa athugasemd til greina.