02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Lárus H. Bjarnason:

Fyrir mér er þessi spurning, er hér liggur fyrir, ógnarlega einföld. Í raun og veru ættu hjúin að hafa hvorutveggju réttinn, bæði kosningarrétt og kjörgengi, úr því að þau hafa skyldu til þess að borga útsvar. Það er að vísu sjaldan mikið, en kosningarréttur og kjörgengi fer víðast hvar ekki eftir því, hvort greitt er mikið eða lítið. — En eg álít nóg í svipinn, að hjú fái kosningarrétt, enda naumast sanngjarnt, að skylda húsbændur til þess, að leyfa hjúum sínum að sitja í bæjarstjórnum eða hreppsnefndum.

Mér fanst ekki háttv. 2. kgk. þm. leggja það til mála, sem eg hafði búist við; mér heyrðist hann ekki vilja missa kvenfólkið frá arninum. Það er að vísu mjög fagurt og virðingarvert sæti. En eigi kvenfólkið að sitja þar áfram, ætti það helst hvorki að hafa kosningarrétt né kjörgengi. Það er ekki einhlýtt, að það geti skorast undan kosningu. Það heftir ekki þær, sem ólmar vilja vasast í sveitarstjórn og því um líku.