14.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Framsögum. (Ágúst Flygenring):

Eg er þakklátur háttv. 5. kgk. þm. fyrir hans góðu bendingar. Um athugasemdir hans að því er snertir 7. og 8. gr. er eg honum samdóma, og vona að nefndin geti orðið á einu máli um það. Sama er að segja um aldurstakmarkið, það er sjálfsagt réttara að miða við 16 ára aldur, úr því að menn öðlast persónulegan myndugleika á þeim aldri. — Athugasemdin um 12. gr. er alveg rétt; það þarf að breyta »verzlunarstjórnandi« í »verzlunareigandi«, enda býst eg við, að það sé samkvæmara tilgangi ákvæðisins.

Eg gleymdi að geta þess, hvað sumarfríið snertir, að það er að vísu ekkert á móti því, að hafa það 14 daga, enda mun það vera tíðkað sumstaðar; en það væri ef til vill hentugra að gefa til leyfis að tvískifta því.

Ef húsbónda væri gert að skyldu, að sjá um nemanda, sem sýkist, í 6 mánuði, væri sjálfsagt að hafa ákvæðið í samræmi við ákvæði fátækralaganna, þannig að skyldan væri bundin því skilyrði, að sjúklingur væri á heimili húsbónda. En eg vil ekki, að hjálp sé alveg útilokuð, þótt sjúklingur sé utan heimilis, og þá er sanngjarnt að hafa tímann styttri. Eg vil því mæla með því, að hafa það ákvæði svipað því, sem það er nú.

Hvað niðurlögin snertir, mun nefndin fara eftir því, sem lögfræðingar leggja til, og mun vonandi takast að leiðrétta það, sem kann að vera ábótavant að því leyti.