20.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

30. mál, girðingar

Eiríkur Briem:

Eg er samdóma nefndinni í því, að eg álít að frumvarp þetta sé réttarbót, og eg er einnig samþykkur br.tillögum nefndarinnar, sem eg álít að séu til bóta. En samt sem áður sýnist mér frumv. alls ekki gallalaust, og eg óska skýringar á nokkrum atriðum, sem mér finnast vera óljós. Frumvarpið er í 3 köflum og fyrsta kaflanum er skift í 6 greinar. Eg skil nú svo, sem í þeim greinum öllum sé átt við þær girðingar einar, sem njóta styrks af almanna fé. En eftir orðalagi 2. gr. gæti það ef til vill komið til greina, að hér væri átt við allar girðingar, án tillits til þess, hvort þær njóta styrks af almanna fé eða ekki. Það er engin fjarstæða að líta svo á, að ákvæði 2. gr. ættu við allar girðingar, og ekki þær einar, sem njóta styrks af almanna fé, því það getur valdið skemdum á skepnum óviðkomandi manna, ef þess er eigi gætt, að hafa þræðina nógu marga og þétta, og það er eigi öðru að kenna en ólagi á girðingunum, þegar slíkt kemur fyrir. En mér sýnist það ekki koma glögt fram, eins og eg sagði, hvort allar 6 greinar 1. kaflans eiga við þær girðingar, sem njóta styrks af almanna fé, eða ekki. Aftur á móti er skýlaust og ótvírætt orðalag 7. og 8. greinar annars kaflans og auðséð, að þar er átt við allar girðingar. Eg leyfi mér að óska eftir að fá að heyra álit nefndarinnar um þetta atriði, því ef til vil getur það verið, að hún hafi lagt annan skilning í þetta en eg.

Um leið vildi eg skjóta því til nefndarinnar, að eg er ekki með öllu samdóma henni um ákvæðin í 11. gr., þar sem sagt er, að ? hlutar allra þeirra atkv., sem samþyktin nær til, verði að fallast á frumv. það til samþyktar, sem um er að ræða. Það er mitt álit, að þetta á kvæði sé of strangt, og að því er héraðssamþyktir snertir, gæti orðið ómögulegt að fá lögmætan fund; eg hefði fremur kosið, að ekki hefði þurft nema ? hluta fundarmanna til samþyktar á þessu.