30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

33. mál, botnvörpuveiðar

Ágúst Flygenring:

Eg skal leyfa mér að geta þess, í framhaldi af því, sem eg sagði við 1. umr. þessa máls, að eg er sömu skoðunar enn, og eg var þá, að misbrúka megi þá heimild, sem hér er um að ræða. Eg hefi af viðtali við þá, sem hafa flutt þetta mál inn á þingið, komist að raun um, að þeir meina aðallega, að hér sé um það að ræða, að veita ráðherranum heimild, þegar alíslenzk skip eiga í hlut, en ekki ef um útlend skip væri að ræða, sem væru skrásett hér. Þetta vildi eg biðja menn að athuga, en legg að öðru leyti til, að frumvarpið nái fram að ganga.