03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

36. mál, sala á Kjarna

Ráðherra (H. H.):

Mér hefir borist erindi frá sýslunefndarmanninum og hreppsnefndaroddvitanum í Hrafnagilshreppi um mál það, sem hér ræðir um. Eg get ekki skýrt málið betur á annan hátt en með orðum bréfsins sjálfs, og með leyfi hv. forseta skal eg þá leyfa mér að lesa þetta erindi upp. Það hljóðar svo:

»Eins og sjá má af þingmálafundargerð Akureyringa, þá hafa þeir falið þingmanni sínum, að fá þingið til að semja sérstök lög um það, að Akureyrarbær geti fengið keypta þjóðjörðina Kjarna í Hrafnagilshreppi. Abúandinn á Kjarna hefir gefið eftir, eða réttara sagt, eftir kunnugra sögn, selt bænum kaupréttinn fyrir 200 kr. árlegt lífstíðargjald.

Mál þetta er þannig vaxið, að bændur í Hrafnagilshreppi geta ekki setið lengur þegjandi yfir því, að bæði prívatmanna-jarðir, hver eftir aðra, og nú síðast landsjóðsjörðin Kjarni, verði tekin til eignar og umráða fyrir Akureyrarbæ, en svift frá Hrafnagilshreppi.

Hreppurinn hefir sýnt sig mjög liðlegan og sanngjarnan gagnvart kaupstaðnum, þar sem hann hefir gefið eftir, að milli 80 og 90 hundruð eftir nýju jarðamati, sem tilheyrðu hreppnum, væri lagt undir lögsagnarumdæmi Akureyrarkaupstaðar.

Í þetta sinn sýnist aðferð sú, sem bærinn ætlar að brúka, vera nokkuð viðsjárverð. Árið 1905 neitaði sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu ábúandanum á Kjarna um kaup jarðarinnar, og eru í sýslunefndarfundargerð frá því ári færðar ástæður fyrir þeirri synjun, og sú ástæða stendur enn hjá mörgum sýslubúum, sérstaklega hvað kvennaeða hússtjórnarskólahús snertir. En nú sýnist svo, sem það eigi að ganga fram hjá sýslunefnd, að segja um málið, og Hrafnagilshreppur er ekki nefndur á nafn, að hann hafi nokkurn forkaupsrétt að jörðinni. Eftir útliti er ætlast til, að gengið sé fram hjá tveimur málspörtum, sýslunefnd og Hrafnagilshreppi, með þessa sölu.

Eftir okkar áliti getur sala á jörðinni til Akureyrarbæjar verið mjög varhugaverð fyrir Hrafnagilshrepp. Samkvæmt breytingu þeirri á síðasta þingi á lögum um húsmenn og þurrabúðarmenn, þá getur Akureyrarbær látið byggja grasbýli á ýmsum stöðum í Kjarnalandi og leyft fólki þar bólfestu, sem getur á sínum tíma orðið hreppnum til mikilla þyngsla, án þess að sveitarstjórn hafi nokkuð til varnar, því að tilgangur bæjarins mun vera sá, að leggja ekki Kjarna, ef hann fæst, undir lögsagnarumdæmi kaupstaðarins, því það mun bæjarstjórnin sjá að verður of mikill byrðarauki fyrir bæinn, enda ekki samrýmanlegt, nema bærinn keypti þá líka þjóðjörðina Hamra, sem liggur á milli Nausts og Kjarna.

Það er eigi svo að skilja, að Hrafnagilshreppur sjái ofsjónum yfir uppgangi Akureyrarbæjar eða framtakssemi bæjarbúa, enda hafa þeir sýnt það með því, að gefa eftir hverja jörðina eftir aðra til Akureyrar, en öllum má ofbjóða, og þar sem auðsætt er, að Akureyrarbær er búinn að fá svo mikið land til umráða af Hrafnagilshreppi, að hann hefir nóg land til ræktunar um mörg ár, og jafnframt því mikla og góða gripahaga, þá vilja hreppsbúar undantekningarlaust ekki láta skerða hreppinn meira eða veita honum ágang, heldur setja takmörkin þar, sem þau eru komin.

Álit okkar er því, að Akureyrarbær eigi ekki að ná kaupum á Kjarna, og felum við hinum háttvirtu þingmönnum Eyfirðinga að stuðla að því eftir mætti, að mál þetta fái ekki framgang hjá þinginu í þeirri mynd, en færi svo, að þingið væri ekki mótfallið því að selja jörðina, þá mælumst við til, að Hrafnagilshreppur fái að sitja fyrir kaupunum, því að það er eindreginn vilji hreppsbúa yfirleitt, og er von á áskorun frá almennum hreppsfundi í þá átt, og verður sú áskorun þá send með næsta pósti til þingsins eða þingmanna Eyjafjarðarsýslu.

Hranastöðum og Stokkahlöðum,

2. febr. 1909.

Pétur Ólafsson

(hreppsnefndaroddviti).

Einar Sigfússon

(sýslunefndarmaður).

Til

alþingismanna Eyjafjarðarsýslu«.

Eg finn ekki ástæðu til að skýra frekar þetta mál. Eg vil að eins taka það fram, að lög um forkauprétt leiguliða kveða svo á, að sveitarfélagið, þar sem jörðin liggur, öðlast forkaupsréttinn, ef ábúandinn afsalar sér honum. Þessi ákvæði innihalda loforð til hreppsfélaganna, sem löggjafarvaldið virðist ekki eiga að bregða að ástæðulausu eða án knýjandi nauðsynjar. Nú virðist engin nauðsyn fyrir Akureyri til að eignast þessa jörð; önnur jörð liggur á milli Kjarna og Akureyrar, sem bærinn ætti að snúa sér að fyrst. Það væri því réttast, að þetta mál færi ekki lengra.