03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

36. mál, sala á Kjarna

Ráðherra (H. H.):

Eg vil að eins gera þá athugasemd, að eg sé ekki, að þjóðjarðasölulögin komi neitt við spurningunni um það, hvort rétt sé að ganga fram hjá hreppnum, er hann beiðist kaups að ábúanda frágengnum. Þjóðjarðasölulögin eru eingöngu um sölu til ábúandans. Þau heimila stjórnarráðinu að selja ábúanda ábýli sitt með tilteknum skilyrðum, án þess að fengin sé sérstök lagaheimild í hvert sinn; vilji einhver annar kaupa þjóðjörð, þá þarf sérstök lög, og ekki geta þjóðjarðasölulögin fyrirskrifað löggjafarvaldinu neitt um það, hvað gera beri í hverju einstöku tilfelli. En lögin um forkaupsrétt leiguliða slá fastri almennri reglu, sem hreppsfélögin virðast eiga rétt á að treysta að fylgt verði, þótt landið sé seljandi, meðan þeim lögum er ekki breytt, og engin knýjandi þörf til undantekningarlaga.

Þá eru einnig mjög skiftar skoðanir um það á Akureyri, hvort heppilegt sé fyrir bæinn að kaupa jörðina; það eru sumir þar, sem álíta það óráð að kaupa hana, af því að bærinn hafi nóg landrými og nóg annað í að ráðast. En hitt mun rétt, að margir á Akureyri álíti, að þeir geti haft hag af því að »spekúlera« í að fá Kjarna. En slíkt er ekki næg ástæða fyrir löggjafarvaldið til þess að breyta út af sínum eigin fyrirskipunum, og er því að minni hyggju réttast að láta frv., sem komið er fram af þessum hvötum, falla.