03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

36. mál, sala á Kjarna

Sigurður Hjörleifsson:

Háttv. ráðherra hélt því fram, að ýmsir menn á Akureyri teldu þetta óþarft mál, að kaupa jörðina. En eg vil þó geta þess, að eg hefi hér fyrir framan mig þingmálafundargerð, þar sem þetta var samþykt með öllum þorra atkvæða. Á Akureyri eru að eins örfáir menn, sem ekki óska að kaupa jörðina. Þeir, sem ekki vilja kaupin, eru örfáir í samanburði við hina, og þetta mál er hér komið fram eftir vilja meiri hlutans í kjördæminu. En hvað áhrærir lögskýringar hæstv. ráðherra, þá er mér kunnugt um það, að merkir lögfræðingar líta öðru vísi á þetta mál en hann, og telja að selja megi jörðina án þess að taka tillit til forkaupsréttar Hrafnagilshrepps. Það er auðvitað rétt, að ábúandinn hefir forkaupsréttinn samkvæmt lögunum, en nú er málið þannig vaxið, að Akureyrarbær hefir samið við ábúandann og fengið hann til að afsala sér bæði forkaupsréttinum og ábúðarréttinum, og það er gert líka í því skyni, að veita ábúandanum engan yfirgang; hann er roskin ekkja. Hér er gerður allur sá undirbúningur, sem til þess þarf, að málið fari eins vel og hægt er. Hvað viðvíkur bréfi því, sem hæstv. ráðherra las upp, þá má ekki taka mikið tillit til þess, sem að eins er frá 2 mönnum, sem ekki einu sinni hafa neitt umboð og því síður nokkurt vald sjálfir í þessu máli.

Eina ástæðan í bréfinu, sem takandi er til greina, er sú, að Akureyri gæti þröngvað kosti Hrafnagilshrepps með því að koma þar upp grasbýlum, en þetta eru getsakir. Það finst ekkert slíkt fordæmi í viðskiftum Akureyrar og Hrafnagilshrepps. Hrafnagilshreppur skaðast ekki á þessum kaupum. Þvert á móti græðir hreppurinn, ef Akureyri kaupir jörðina. Eg hygg, að skjalið verði fremur til að skaða rétt mál en hitt.