03.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

36. mál, sala á Kjarna

Sigurður Hjörleifsson:

Þegar sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu lagði á móti því, að þessi jörð væri seld, þá vakti fyrir henni, að jörðin væri hentugt skólastæði. Og þá var einmitt umtal um að stofna þar skóla. En nú er þetta orðið breytt; nú hefir enginn augastað á Kjarna fyrir skólastæði, nema ef til vill 2 menn í Hrafnagilshreppi. Að minsta kosti veit eg ekki til að svo sé.

Eg held fast við það, að með því að Akureyri fái jörðina keypta, verður hún bezt að almenningsnotum; hún verður bæði flestum að notum og að mestum notum á þann hátt. Þess vegna er ekki rétt að fella frumvarpið, því að eg ímynda mér, að deildin vilji ekki gjarnan gera neitt það, sem væri til óhagnaðar fyrir marga menn. Eg skal líka geta þess, að ýmsir lögfræðingar hafa látið í ljós það álit, að sala jarðarinnar komi enganvegin í bága við gildandi lög.