08.05.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Sigurðsson:

Eg skal ekki verða margorður að þessu sinni. Eg ætla aðeins að minnast lítillega á br.till. mína viðvíkjandi Grímsnesbrautinni.

Á fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar var tekin upp fjárveiting til þessarar brautar, 10 þús. kr. hvort árið. Svo varð það að samkomulagi hér á þinginu, að veita aðra upphæðina á fjáraukalögunum fyrir 1908 og 1909; en hin fjárupphæðin, 10 þús. kr., á fjárlagafrumvarpinu hefir lent í hrakningi milli deildanna. Neðri deild hefir samþykt þessa fjárupphæð, en efri deild felt hana burtu jafnharðan.

Hér skal ekki rætt um það, hve mikil þörf er á þessari braut; það er búið að benda á það svo oft áður. En hins má geta, að óvíða mun meiri nauðsyn á vegabót en einmitt þarna. Landið, sem brautin á að liggja yfir, er skógi vaxið og mjög fallegt, og eykur það á nauðsyn brautarinnar.

Áður en eg sezt niður, vil eg benda á það, að fé því, sem varið er til vegabóta, er betur varið og kemur að meiri notum en flestar aðrar fjárveitingar þingsins. Og þjóðin er jafnan mjög þakklát fyrir það, sem gert er til þess að bæta samgöngurnar hér á landi.

Það er því illa farið, ef alþingi ætlar nú að kippa að sér hendinni og hætta svo að segja við alla vegagerð.

Á fjárlögunum sem nú gilda, eru ætlaðar 257 þús. kr. til þjóðvega og flutningabrauta. Á stjórnarfrumvarpi til fjárlaga er lagt var í öndverðu fyrir þetta þing, var ætlað til flutningabrauta og þjóðvega 204 þús. kr. En á fjárlagafrumvarpinu, eins og háttv. efri deild skildi við það, eru það aðeins 130 þús. kr., sem verja á í þessu skyni næstkomandi fjárhagstímabil.

Eg hygg nú, að þjóðin líti svo á, með allri virðingu fyrir sparsemi þingsins, að farið sé hér aftan að siðunum, að því er snertir sparnaðinn. Vegabætur borga sig altaf, ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis.

Að endingu vil eg geta þess, að eg hefi ekki viljað né farið fram á, að þessi fjárveiting eða önnur mál, sem eg hefi borið fyrir brjóstinu, yrðu gerð að flokksmáli innan míns flokks. Mér er það ógeðfelt, að sú leið sé mikið tíðkuð. Hinsvegar treysti eg jafnan, þegar um gott mál er að ræða, eins og þessi fjárveiting til Grímsnesbrautarinnar er, að vit og sanngirni ráði gjörðum hinna háttv. þingmanna. Og eg þykist þess fullviss að við atkvæðagreiðsluna um þessa tillögu mína komi það í ljós, að vitið og sanngirnin ráði hér úrslitum.