31.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

36. mál, sala á Kjarna

Framsögumaður (Sig. Hjörleifsson):

Háttv. 1. kgk. þm. segir í nefndaráliti minni hlutans, að það þurfi meira til en þörfina til þess að selja beri slíka jörð, sem Kjarna. Í framsögu sinni áðan gerði háttv. þm. enn meir úr þessari jörð, því að hann hélt því fram, að það mætti ekki nota hana til beitar. Þá þykir mér orðið hátt risið þjóðjarðanna, ef ekki má beita þær. Eg leyfi mér að halda því fram, að þessi jörð sé ekki of góð til þeirrar notkunar fremur en aðrar jarðir hér á landi.

Eins og hefir verið tekið fram, hefir Akureyri haft beitiland á Kjarna til afnota, en á ekki von á að hafa það framvegis og horfir þá til vandræða fyrir bæinn. Þetta er álit bæjarbúa sjálfra, og eg verð að álíta, að það sé meira að marka skoðun þeirra að þessu leyti, heldur en skoðun háttv. 1. kgk. þingm., því að þeir hljóta að vera þörfinni kunnugri.

Akureyringum hefir verið borið það á brýn, að þeir ætluðu að koma af sér fátæklingum á Hrafnagilshrepp. Þessu verð eg að mótmæla. Það er ekkert fordæmi til í viðskiftum Akureyrar og Hrafnagilshrepps, sem gæti réttlætt slíka ályktun. — Hins vegar hefi eg bent á það, að það er full ástæða til að taka tillit til þess, á hvern hátt væri heppilegast að gera menn úr því fólki, sem streymir til kaupstaðanna og sezt þar að í fullri lagaheimild. Eitthvað þarf að gera fyrir þetta fátæka fólk, en hvað er heppilegast? Eg efast ekki um, að hollasta aðferðin er sú, að gefa þessu fólki mögulegleika til að afla sér uppeldis með grasrækt. Eg er sannfærður um, að hagur Akureyringa væri nú blómlegri en hann er, ef þeir hefðu fyrir löngu tekið þá stefnu, að leggja meira kapp á grasræktina en sjávarútveginn; hagur Akureyrar væri betri og þá um leið hagur landsins.

Mér þykir skrítið að heyra menn segja, að Hrafnagilshreppur sé eins líklegur til að rækta þessa jörð, eins og Akureyrarkaupstaður. Mér þykir þetta undarlegt, þegar litið er til þess, að Akureyri hefir bæði meira fé og fleiri hendur til að vinna, enda hefir það sýnt sig, að Akureyrarbúar hafa ræktað vel þær jarðir, sem þeir hafa fengið í sínar hendur.

Háttv. 5. kgk. þm. kvað réttast, að leggja jörðina undir lögsagnarumdæmi Akureyrar, ef bærinn fær hana keypta, því að þá geta Hrafnagilshreppi ekki aukist vandræði vegna sölunnar. Þetta hefðum við Akureyrarbúar helzt kosið, en við höfum ekki farið fram á það af eintómri sanngirni við Hrafnagilshrepp. Við vildum ekki fara fram á það, að hreppurinn yrði sviftur þeim auknu tekjum, sem hann annars mindi hafa af jörðinni, ef hún kemst í hendur Akureyringa. Það mundi fara eins um þessa jörð, eins og jörðina Naust, sem einnig liggur í Hrafnagilshreppi. síðan Akureyri eignaðist þá jörð, hefir hreppurinn haft af henni margfaldar tekjur á við það, sem áður var, enda hefir Akureyri nú orðið að borga hreppnum stórfé fyrir að fá jörðina lagða undir lögsagnarumdæmi bæjarins. Hreppsbúar voru auðvitað skynsamari en svo, að þeir vildu sleppa henni fyrir ekkert — Það er fjarri því, að Akureyri vilji á nokkurn hátt ganga á rétt Hrafnagilshrepps eða sýna honum ójöfnuð, og eingöngu þess vegna höfum við ekki farið fram á, að Kjarni væri lagður undir lögsagnarumdæmi Akureyrar.

Eg skal geta þess, að það er ekkert nýtt eða óheyrt, sem hér er um að ræða. Eg veit ekki betur, en að Reykjavík hafi lagt undir sig jarðir, og hafi orðið að gera það, til þess að ekki yrði heftur eðlilegur vöxtur bæjarins.

Hvað snertir útbyggingarsök á hendur ekkjunni, sem nú býr á Kjarna, skal eg ekkert fara út í það, því að það kemur ekki málinu við. Ef til þess kæmi, væri ef til vill fleira, sem komið gæti til athugunar um umboðsstjórn þeirrar jarðar. En það liggur ekki hér fyrir að rannsaka slíkt.

Háttv. 5. kgk. þm. sagði, að löggjafarvaldið hefði ekki rétt til að selja Akureyri jörðina. Eftir staðhæfingar hans að þessu lútandi við 1. umræðu, þótti mér eftirtektavert, að hann hafði breytt þeim í ræðu sinni og sett í staðinn, að það mundi vera svo; hann virðist þá ekki vilja fullyrða það. Annars er það undarlegt, að hann skuli halda þessu fram, þar sem það þó er auðséð, að þeir menn, sem hafa undirbúið lögin um forkaupsrétt leiguliða, landbúnaðarnefndarmennirnir, hafa litið svo á, að lögin giltu að eins fyrir jarðeignir einstakra manna. Það er þegar auðséð á fyrirsögn frumv., eins og það kom frá landbúnaðarnefndinni, því að það var þá kallað »frumvarp til laga um forkaupsrétt á jarðeignum einstakra manna«.

Og það er ekki heldur neitt, sem bendir til þess, að annað hafi vakað fyrir þinginu 1905, en að lögin skyldu að eins gilda um einstakra manna jarðir. — Stjórnin breytti þessu frumv. áður en það var lagt fyrir þingið, því að hún vildi ekki ganga að því, að sveitarfélag hefði forkaupsrétt að ábúanda frágengnum, og þá var titlinum um leið breytt í: »Lög um forkaupsrétt leiguliða og fleira«. Sá titill hélzt svo, þrátt fyrir það að þingið setti aftur inn í frumv. ákvæðið um forkaupsrétt sveitarfélaga. Það hefir ekki verið hirt um að breyta titlinum aftur, þó að ákvæðið væri sett aftur inn í lögin, því að titillinn var þó ekki beint rangur, en hefði að vísu helzt átt að breytast i: »Lög um forkaupsrétt leiguliða og sveitarfélaga«, eða þá: »um forkaupsrétt á jarðeignum einstakra manna«, eins og hann var upphaflega. — Ennfremur vil eg benda á, að frumv. til laga um sölu þjóðjarða gerði ráð fyrir forkaupsrétti sýslufélaga, en það ákvæði var felt burt af stjórninni og kom aldrei aftur inn í frumv. Það væri undarlegt, ef samt ætti að vera að ræða um forkaupsrétt á þjóðjörðum að ábúanda frágengnum.

Alt þetta sýnir glögt, að lögin um forkaupsrétt leiguliða gilda ekki, og hafa aldrei átt að gilda, um þjóðjarðir.