31.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

36. mál, sala á Kjarna

Lárus H. Bjarnason:

Eg þakka fyrir lexíuna um lögskýringar. Annars var ekkert nýtt í ræðu hins háttv. þm. Strandamanna; það var það sama sem hinn háttv. þm. Akureyrar þegar hafði sagt, en það sauð bara dálítið hærra í þessum katlinum. Það gleður mig, hve kunnugur hinn háttv. þingm. Akureyrar er ræðum mínum, bæði prentuðum og skrifuðum, leiðréttum og óleiðréttum. Eg verð aftur á móti að játa, að eg veit ekki jafngóð deili á hans skrifum, fæ nóg af að heyra hann flytja ræður sínar. Þingm. sagði, að eg hefði talað öðru vísi við 1. umræðu en nú, en það er ekki rétt. Eg hefi sagt, og segi enn, að landsjóður eigi ekki að selja Kjarna, en ef hann gerir það, þá hefir bæði ábúandinn, og hreppurinn að ábúandanum frágengnum, forkaupsrétt; eg skildi háttv. þm. Strandamanna svo, sem ábúandinn hefði afsalað sér forkaupsréttinum, en háttv. þm. Akureyrar svo, sem hann ekki hefði gert það. En hvað sem rétt er í því efni, þá er það víst, að hreppurinn hefir forkaupsrétt, og hefir ekki afsalað sér honum.

Eg er í engum vafa um, að verði Kjarni seldur Akureyri þrátt fyrir mótmæli Hrafnagilshrepps, þá er þar með brotin meginregla laganna um forkaupsrétt leiguliða. Með því eru sviknar vonir, sem gefnar voru með lögunum 20. okt. 1905, og ónýtt góð og merkileg lög.

Það gæti ef til vill komið til mála fyrir Hrafnagilshrepp, að þverskallast gegn þeirri ráðstöfun löggjafarvaldsins, en reyndar býst eg við, að svo yrði litið á, sem þetta væri »lex specialis«, sem breytti 4. gr. laga 20. okt. 1905.

Um hitt skal eg ekki deila við hinn háttv. þm. Strandamanna, hvor okkar notar réttari aðferð við lögskýringar. Mér var kent, að nóg væri að hafa fyrir sér orð laganna, þegar þau væru ótvíræð; þá þyrfti ekki lengra að leita. Og eg skal játa það, að þetta kenni eg, og mun kenna, þrátt fyrir vísdóm hv. þm.

Þjóðjarðir eru nú sjaldan seldar með sérstöku lagaboði, en þegar það er gert, gildir 1. og 4. gr. laganna um forkaupsrétt leiguliða.

Mér er mál þetta ekkert kappsmál, en hitt vildi eg leitast við að sýna, að eg hefði ekki gert mig sekan í neinni goðgá með skilningi mínum.