31.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

36. mál, sala á Kjarna

Framsögumaður (Sig. Hjörleifsson):

Þrátt fyrir þær ræður, sem fluttar hafa verið, hefi eg litlu við það að bæta, sem eg sagði í fyrri ræðu minni. Alment sagt, get eg sagt að eg sé ánægður með umræðurnar. Við 1. umræðu þessa máls var því haldið fram með drýgindum, að ekki kæmi til mála annað en að Hrafnagilshreppur hefði forkaupsrétt að Kjarna, og væri sá eini sem gæti skorið úr. En mér hefir fundist á umræðunum hér í dag, að menn hafi orðið að játa, að þessi réttur sé lítill eða enginn. Mér hefir fundist menn hafa gert það fremur af leik að verja það, en af því mönnum finnist það vera á rökum bygt. Það er vanalegt um góða hermenn, að þegar þeir eru reknir úr einu vígi, þá hlaupa þeir í annað. Eins hefir farið hér; þegar mótstöðumenn okkar sjá sér ekki fært að verja þessar staðhæfingar lengur, þá koma þeir með aðrar nýjar staðhæfingar, önnur ný vígi. Það er engin þörf á að ota þeim úr þessum nýju vígjum sínum; þau eru svo léleg, að þau eru engin vígi. Það er ekki mörgum orðum að þeim eyðandi. Þó skal eg minnast litið eitt á það, sem háttv. 4. kgk. þm. sagði um bændaskóla, að það sé enn óútkljáð, hvort bændaskólinn verði ekki fluttur að Kjarna. Það er undarlegt, að hann skuli halda þessu fram nú, þar sem einmitt er búið að velja milli Hóla og Kjarna, búið að setja gildandi lög um þetta efni. Sú spurning lá hér fyrir, hvort ætti heldur að hafa skólann á Kjarna eða á Hólum, og það var samþykt með miklum meiri hluta, að hafa bann á Hólum. Þetta er því harla léttvæg mótbára, og það því fremur, sem eg vona, að fjárlögin fari svo út úr þinginu, að fé verði veitt til byggingar bændaskólans á Ilólum.

Að því er snertir verð jarðarinnar, er það dálítið einkennilegt, að heyra menn koma með fullyrðingar um það, hvers virði hún sé og byggja á því, eða þykjast vita betur en dómkvaddir virðingamenn, sem eru nákunnugir jörðinni og eru reiðubúnir að staðfesta virðingu sína með eiði. Þeir segja í matsgjörð sinni, að af jörðinni hafi ekki fengist meira en 120 hestar af töðu og 600 af slægjum á ári síðustu tíu árin. Eg held mér við það sem þeir segja, og sé ekki ástæðu til að rengja það, enda skil eg ekki, að aðrir viti betur. Það er líka einkennilegt, að til að fá út þetta háa verð, svo að nokkur sanngirni sé í því að selja jörðina fyrir 8200 kr., hafa þeir orðið að gera ráð fyrir, að 60 kúm verði beitt í högum landsins, og 4 kr. borgaðar fyrir kúna. Með því eina móti verður jörðin metin svo háu verði.

Það er undarlegt að heyra menn, sem ekkert þekkja til, slá því fram, að bænum sé það ekkert áhugamál að ná í Kjarna. Það hefir verið áhugamál bæjarins í mörg ár. Málið kom fyrir bæjarstjórnina í vetur eftir áskorun 50—60 helztu borgara bæjarins. Í bæjarstjórninni hefir aldrei verið minsti vafi á því, að þörfin væri mikil fyrir bæinn. Á fjölmennum þingmálafundi, sem haldinn var á Akureyri, voru ein 4 atkvæði á móti kaupunum. Og þessi 4 atkvæði þau einu, sem hafa mótmælt sölunni, (Lárus H. Bjarnason: Hvað segir hinn málsaðilinn, Hrafnagilshreppur?). Það er mikið rétt, að hinn málsaðilinn, hreppurinn, krefst forkaupsréttar að jörðinni, en sannast að segja lítur út fyrir, að það sé fremur gert til að spilla fyrir sölunni til Akureyrar, en af því hreppnum sé það áhugamál að ná í jörðina. Háttv. þingmenn Eyfirðinga hafa t. d. aldrei reynt að fá jörðina keypta fyrir hreppinn, enda hefir hreppurinn alls ekki forkaupsrétt að jörðinni. Það er hart, og maður má hugsa til þess með kinnroða, að sá maður, sem er forstöðumaður lagaskólans, skuli halda fram svo öfugum skýringum á lögum, sem hann sjálfur hefir átt þátt í að semja. Hvað mun þá um eldri, örðugri lög? — En svo eg víki að hinu aftur, þá finst mér bærinn hafa sýnt það fullkomlega, að honum er það áhugamál að ná í jörðina, þar sem hann vill gefa fyrir hann, 8200 kr.