02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

36. mál, sala á Kjarna

Steingrímur Jónsson:

Eg hefði ekki staðið upp við þessa umræðu, ef eg hefði ekki átt breyttill. á þskj. 416, því að eg gerði grein fyrir mínu atkv. við 2. umræðu málsins. Viðvíkjandi þessari br.till., sem fer fram á að í stað 8200 kr. komi 12,000 kr., skal eg geta þess, að eg álít 8200 kr. altof lágt verð, enda þótt jörðin hefði verið seld ábúanda. En nú álít eg að verðið geti enn síður staðist, þar sem ekki á að selja ábúanda, og hins vegar á að selja jörðina þvert ofan í vilja sýslunefndar og hreppsbúa. Því að eg sé ekki betur, en að allar reglur um forkaupsrétt séu brotnar. Það hefir hins vegar nóg verið gert til þess, að pína niður verð á jörðum hér á landi, þó ekki sé nú verið að halda því áfram með þessum »special«-lögum.

Eg hefi leitað mér nokkurra upplýsinga um þessa jörð, og samkvæmt þeim er ekki of sagt, þó að eg segi að jörðin sé viss með í hverju meðalári að gefa af sér alt að 1000 hestum af nautgæfu heyji. Af þessu er eitthvað 140 eða 150 hestar taða, og eykst hún heldur. Engi á jörðinni hafa stórbatnað árlega án þess að við þau hafi verið gert. Eftir þessu sýnist mér það liggja í augum uppi, að það sé allt of lágt að selja jörð með slíkum engjum, sem liggur rétt hjá Akureyri, fyrir 8200 kr. og skal eg aðeins benda á Naust og Eyrarland til samjafnaðar. Landið liggur svo vel, að ábúandi á Kjarna hefir miklar tekjur af gripabeit úr Akureyrarkaupstað. Það er óhætt að fullyrða, að 30 kúa beit sé landinu til einkis skaða.

Eg er sannfærður um það, að ef þessi jörð hefði verið í einstaks manns eign, þá hefði ekki verið tiltök að hún hefði selzt fyrir minna en 16000 kr. Eg vona að mín br.till. verði samþykt, ef háttv. deild á annað borð ætlar málinu að sleppa héðan.