08.05.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ari Jónsson:

Eg ætla að eins að drepa örfáum orðum á breyttill. 735, þar sem stungið er upp á að hækka úr 2500 kr. upp í 5000 kr. styrk til að rita og gefa út rit um þjóðréttarstöðu landsins. Það er svo langt frá, að þessi styrkur sé of hár, er rita á um jafnmikilvægt mál og þjóðréttindi Íslands, og það því síður sem útgáfustyrkur er fólginn í þessari upphæð. Á riti þessu er mikil þörf. Hafa menn fundið mjög til þess á síðastliðnum áratugum; jafnvel hefir verðlaunum verið heitið fyrir rit um þetta efni. En einkum nú á þessum tímum er mikil nauðsyn á, að ritað sé slíkt rit, þar sem kunnugt er að ýmsir útlendingar leggja kapp á að sýna og sanna réttleysi vort, og ekki laust við, að jafnvel sumir Íslendingar hafi rétt þeim hjálparhönd í seinni tíð. Háttv. 5. kgk. gaf í skyn, að til þess að semja slíkt rit, mundu vera lítt færir menn, ekki síst í meiri hl. Það er ekkert efamál, að vel færa menn vantar til þessa starfa, en taldir munu þeir eigi minni skýrleiksmenn í meiri hl. en minni hl., er komið gætu til mála við þenna starfa. Með því verður að tjalda sem til er, og treysta má stjórninni til þess að nota þá kraftana, sem beztir eru.

Eg sé að hér er komin fram brtill. um að fella styrkinn, frá Lárusi nokkrum Bjarnasyni, líkl. þó ekki frá háttv. 5. kgk. þm., því hann skrifar sig Lárus H. Bjarnason, en þarna er ekkert »H«, nema hann ef til vill hafi ætlað að lána Magnúsi Blöndal h-ið í dag. Annars vona eg að háttv. þing felli þessa brtill. háttv. Lárusar Bjarnasonar og treysti því, að þingið hækki styrkinn til að rita og gefa út þetta nauðsynlega rit.