23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

36. mál, sala á Kjarna

Framsögum. (Sigurður Hjörleifsson):

Það eina, sem liggur hér fyrir, er að ákveða verð jarðarinnar, því eins og kunnugt er, hefir Nd. fært verðið á jörðinni úr 8000 kr. upp í 12000 kr. Nefndin, sem áður hafði þetta mál meðferðis hér í deildinni, hefir nú að nýju tekið málið til meðferðar með þessa verðhækkun fyrir augum og hefir eigi getað orðið sammála, og minni hluti hennar vill þá heldur, að Akureyri verði algjörlega af kaupunum, en að sæta þessum afarkostum, og álítur, að jörðin sé fullseld á 10000 kr.; það er það hæsta, sem eg álít að sú jörð verði seld fyrir. Og þar eð þessi sama tillaga — um að selja jörðina fyrir 12000 kr. — hefir verið feld áður hér í deildinni, vona eg að eins verði í þetta skifti.