08.05.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Steingrímur Jónsson:

Eg vil leyfa mér að mæla fram með br.till. háttv. 5. kgk. þm. Eg held að engin þörf sé á þessu riti til þess að sannfæra Íslendinga sjálfa. Ef það ætti að miða að því, að fræða og sannfæra útlendinga um okkar pólitíska rétt, væri nokkuð öðru máli að gegna. En t. d. Danir munu líta svo á, að þetta sé beint pólitískur bitlingur handa einhverjum rosknum og ráðnum Danahatara hér heima.

Áður en eg lýk máli mínu vil eg minnast á það, að eg hefi heyrt kvartanir frá tveim eða þrem meiri hl. mönnum, í þá átt, að sorglegt væri að sjá, hvernig fjárlögin bæri með sér kistulagning margra stórnauðsynlegra framfarafyrirtækja hér á landi.

Betur að það reyndist ekki svo.