23.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

36. mál, sala á Kjarna

Stefán Stefánsson (6. kgk.):

Eg verð að taka í sama strenginn og háttv. þingm. Akureyrar, enda er það almenn skoðun nyrðra, að betur myndi verða búið á Kjarna, kæmist hann í hendur Akureyrarbæjar, en meðan hann er eign landsjóðs. Ábúandinn þar mundi borga meiri skatt í landsjóð, og Hrafnagilshreppur gæti lagt meira á hann, og græddi því beinlínis á sölunni, og endirinn yrði að öllum líkindum sá, að vér Akureyrarbúar yrðum að borga Hrafnagilshreppi stórfé til þess að fá Kjarna inn undir lögsagnarumdæmið, eins og Naust, sem vér verðum að borga hreppnum 65 kr. í 25 ár fyrir það, að það verður lagt undir lögsagnarumdæmi Akureyrar. Íbúar Hrafnagilshrepps litu alt öðrum augum á það mál, en háttv. 5. kgk. þm. Hrafnagilshreppur væri beinlínis beittur rangsleitni, ef farið væri að honum fornspurðum að leggja Kjarna undir lögsagnarumdæmi Akureyrar. Eg verð einmitt fyrir hreppsins hönd að mótmæla slíkri ráðstöfun. Það er sagt, að 12000 kr. sé hæfilegt verð fyrir jörðina, en engin ástæða er færð fyrir því, hvers vegna það sé hæfilegt. Þetta 12000 kr. verð hefir verið sett algerlega af handahófi? Eða því á hundraðið í þessari jörð að kosta 300 kr., þegar það í öðrum jörðum í Eyjafirði ekki er nema 100 kr. virði. Og hvers vegna á einmitt að selja hundraðið á 300 kr., því ekki á 400 kr., eða 500 kr.? Í matsgjörðinni eru færð rök að því, að verð það — 8200 kr. — sem þar er sett á jörðina, sé sannvirði hennar; þar er einmitt tekið tillit til legu jarðarinnar og annara hlunninda, er henni fylgja, og einmitt fyrir það verð á að selja jörðina. Eg held að það sé misskilningur hjá háttv. 1. kgk. þm., þótt kunnugur sé þar fyrir norðan, að það liggi jörð á milli Kjarnalands og Akureyrarlands, nefnilega Hamrar. Hamraland liggur eins og tunga á parti milli Kjarnalands og Akureyrarlands, en annars er Akureyrarland, Naustaland og Kjarnaland samanhangandi spilda.