25.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

38. mál, skipun læknishéraða

Kristinn Daníelsson:

Eg skal ekki tala langt mál. 5. kgk. þm. gerði nokkrar athugas. við frumv. Það fyrst, að eg hefði átt að stinga upp á nefnd. Eg óskaði ekki eftir nefnd, af því að fyrir mér var málið fullljóst og svo óbrotið, að mér virtist ekki þörf á nefnd í það; hugði að það gæti gengið lífsgötu sína gegnum deildina nefndarlaust. Læknaskipunarlögin eru heldur ekki nein ástæða á móti þessu máli. Það hefði sjálfsagt átt að fylgja með lögunum frá síðasta þingi; það var að eins af slysni, að það fylgdi ekki með. 5. kgk. þm. mintist á það, að það væru margir læknar í Ísafj.sýslu, en það ætti ekki að hafa áhrif á það, hvort það væri nauðsyn eða ekki nauðsyn, að þetta mál fengi framgang, því að hann veit það, að Ísafj.sýsla er þannig yfirferðar, að þörf er þar á fleiri læknum en víðast annarstaðar. Þar sem háttv. 5. kgk. þm. talaði um .að það væri ósamkvæmni í því, að þetta frumv. kæmi frá meiri hlutanum, þá er það til þess að segja, að það er ekkert flokksmál, og eg hefi ekki borið það undir aðra þingmenn. Eg tek það sem leyfar frá síðasta þingi, þar sem það hefði átt að fylgjast með öðrum læknisdæmum landsins. Það sem háttv. þm. V.-Skaft. sagði um að stofna aukalæknisumdæmi,þá held eg að stefnan sé sú, að stofna ekki þess konar embætti.