25.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

38. mál, skipun læknishéraða

Lárus H. Bjarnason:

Háttv. þm. V.-Ísf. sagði, að þörf væri á 2 læknum í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Eg er þar líka kunnugur og álít þar enga þörf á fleiri en einum. Gemlufallsheiði, sem ætti að skifta héruðunum, er ekki svo erfið yfirferðar. Það er að eins lítilfjörlegur háls, l½—2 tíma reið milli Þingeyrar og Flateyrar. Og mannfjöldinn í allri sýslunni er ekki nema eitthvað í kring um 2400, svo að ekki er mannfjöldinn of mikill. Eg þori ekki að segja, að þetta sé hreppapólitík, en það mætti kalla það 5 hreppa pólitík. Þó að ástæða væri til að fjölga læknum einhverstaðar, þá er það ekki þarna. Annars er ekki ástæða til að þrefa lengur um þetta, en eg vildi að eins hafa tekið þetta fram, ef óstaðkunnugir menn skyldu lenda í nefndinni.