17.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

38. mál, skipun læknishéraða

Framsögum. (Kristinn Daníelsson):

Eins og háttv. deild sér af nefndarálitinu á þgskj. 461, þá hefir nefndinni ekki tekist að verða samferða um þetta mál. Eg hefi tekið að mér að gera grein fyrir atkvæði okkar tveggja, sem erum í meiri hlutanum. Þriðji nefndarmaðurinn, háttv. 4. kgk. þm., gerir svo sjálfur grein fyrir sínu atkvæði.

Eg hygg, að málið sé bæði svo gott og svo ljóst, að eg þurfi ekki að fara ýkja mörgum orðum um það.

Það er öllum ljóst, hve læknislistinni hefir fleygt áfram nú á síðari árum, og þetta hefir ekki farið fyrir ofan garð og neðan hjá almenningi hér á landi, heldur hefir það vakið heita þrá hjá fólki að geta orðið aðnjótandi hjálpar lækna, og menn vita fyrir víst, að lækna megi marga kvilla, ef þeir á annað borð næðu til læknis. Af þessu er það eðlilegt, að kröfur þjóðarinnar fari sívaxandi í þá átt, að læknum verði fjölgað í landinu. Og eg er viss um það, að það sem þjóðin krefst einna frekast af löggjafarvaldinu, er einmitt það, að henni verði séð sem bezt fyrir læknum.

Þetta hérað, sem nú fer fram á, að því sé fenginn sérstakur læknir, er eitt af þeim héruðum, sem einna fyrst fór fram á slíkt. Árið 1895 byrjaði það fyrst að reyna að útvega sér sérstakan lækni, og var þá í fyrstu hugsað til að koma þessu til vegar að eins með samskotum og sveitarsjóðsstyrk. En nú hefir læknum verið fjölgað svo mjög, að mönnum í héraðinu þykir þeir eiga kröfu á að fá einhvern til sín.

Eg þarf varla að lýsa mikið erfiðleikum þeim, sem íbúar þessa héraðs eiga að búa við, að vitja læknis. Snjóþyngsli eru þar svo mikil, að það má oft heita illkleift að ná í lækni frá Önundarfirði til Þingeyrar. En einkum úr Súgandafirði má það kalla ókleift. Eg lýsti því við fyrstu umræðu, að það hefir enda kostað mannslíf á þessum stað, að ekki náðist í lækni í tæka tíð. Eg skal enn fremur geta þess, að á Flateyri í Önundarfirði er svo mikil umferð af útlendingum, að til frambúðar verður ekki komist af þarna án læknis. Og eg geng ekki að því gruflandi, að svo muni verða áður en langt um líður

Eg skal svo ekki fjölyrða mikið um þetta frekar, en minnast að eins stuttlega á hitt héraðið, sem talað er um í nefndarálitinu, sem hér er til meðferðar. Þó að það komi raunar síðar til umræðu, sem sérstakt mál á dagskránni.

Eg er að vísu ekki svo kunnugur í þessu héraði, sem á hinum staðnum. En vér vorum allir sammála um það í nefndinni, að í Strandasýslu mundu örðugleikar vera enn þá meiri en í Þingeyrarhéraði að ná til læknis, og okkur var það ljóst, að í norðurhluta sýslunnar væru menn svo gott sem læknislausir mest alt árið, sérstaklega að vetrinum. Það má fullyrða, að hvergi á landinu muni jafnerfitt að vitja læknis, nema ef kynni að vera í öræfum, en þar er þó veitt nokkur hjálp með sérstöku fjárframlagi. Eg fæ ekki séð, að löggjafarvaldið geti látið slíkt viðgangast.

Eg vona, að háttv. deild taki báðum þessum frv. vel, og uppfylli langþreyðar óskir íbúanna í öllum þessum bygðarlögum.