17.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

38. mál, skipun læknishéraða

Lárus H. Bjarnason:

Eg vildi gjarnan geta forsvarað að greiða atkv. með þessari beiðni, en eg get það ekki. Sams konar beiðni um skifting Þingeyrarhéraðs lá fyrir þinginu 1907. Eg vildi gjarnan styrkja hana þá, en eg gat það ekki. Landlæknir mælti á móti og kvað enga þörf vera á skifting þess héraðs. Hann kvað héraðafjöldann nægan fyrst um sinn, en bar að eins kvíðboga fyrir hinu, að læknar fengjust ekki í héruðin öll. Þetta má sjá í þingtíðindunum 1907, bls. 1363 og 1367.

Eg skal líka geta þess, að örðugleikarnir hafa nokkuð minkað nú síðan sími kom um héraðið. Það má gera lækni aðvart með símanum og spara þannig aðra ferðina, svo að læknir getur komist af stað og á áfangastaðinn miklu fyr en ella.

Eg stend við það, að Gemlufallsheiði er ekki annað en háls og er greið yfirferðar. Hana leggur fljótt á vetrum, en skeiðvegur yfir hana á sumrum.

Það er og satt sem eg sagði, að um 1200 manns búa rétt í kring um læknirinn þar sem hann nú er. Hann situr svo heppilega sem verið getur, rétt í miðju héraði, þegar litið er til fólksfjölda.

Eg hefi ekki heyrt það, að læknir sá, sem er nú í Þingeyrarhéraði, sé orðinn uppgefinn. Hitt veit eg, að hann er sérfræðingur og vill eðlilega færa sér það í nyt. Hann hefir sótt um styrk til að fullkomna sig í þeirri fræðigrein, og vill þá setjast að í Reykjavík.

Háttv. þm. V.-Ísf. mótmælti því, að Nauteyrarmönnum væri meiri þörf á lækni en norðurparti Þingeyrarhéraðs. Eg vil benda á, að frá Nauteyri til Ísafjarðar eru um 6 vikur sjávar, og til þeirrar ferðar þarf að jafnaði fjölmennan bát, venjulega mótorbát, sem kostar um 60 kr. Það væri alt eins hægt og enda hægara fyrir Suðurfjarðahreppsmenn, að sækja sjóveg til Ísafjarðar, eins og fyrir Nauteyrarmenn.