17.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

38. mál, skipun læknishéraða

Framsögum. (Kristinn Daníelsson):

Eg vildi að eins svara háttv. 5 kgk. þm. örfáum orðum. Hann vitnaði til þess, að landlæknir væri máli þessu mótfallinn. Mér datt þá í hug þýzka máltækið: »Da liegt der Hund begraben«. Mest af þessari mótspyrnu gegn fjölgun læknishéraða er runnin frá landlækni, eða hann einatt borinn fyrir. En sú mótspyrna verður honum, svo mætur maður sem hann annars er, sízt til gildis talin. Einmitt hann ætti að láta sér allra manna mest umhugað um, að allir landsmenn ættu hægt með að ná í lækni, er á liggur.

Eg skil hvers vegna háttv. 5. kgk. þm. kallar Gemlufallsheiði lítilfjörlegan háls; hann hefir fengið ríðandi hjarn, þegar hann fór yfir hana, og þá er hún auðvitað ekki mikill farartálmi; en eg hefi farið yfir hana mörgum sinnum í ófærð, og veit því hvernig hún er. Hún getur sannarlega verið illur þrándur í götu. Háttv. 5. kgk. þm. taldi Þingeyri heppilegt læknissetur, en það er eftir því sem á það er litið; hún liggur miklu nær suðurenda héraðsins. Háttv. 5. kgk. þm. hélt mér hefði orðið mismæli, þar sem eg sagði, að hægra væri að ná í lækni á Ísafirði úr Nauteyrarhéraði, en lækni á Þingeyri úr Súgandafirði. Nei, mér varð ekki mismæli, og eg stend við það, er eg sagði þá. Það getur iðuglega tekið 2 daga á vetrum, að ná í lækni úr Súgandafirði, en mun sjaldnast þurfa meira en 12 tíma til þess að ná í lækni á Ísafirði úr Nauteyrarhéraði. En mín meining var alls eigi að reyna að gera lítið úr erfiðleikum þeim, er íbúar Nauteyrarhéraðs ættu við að búa í þessu efni, heldur aðeins að sýna, að Súgfirðingar væru þó enn ver settir. Hv. 5. kgk. þm. sagði að Súgfirðingar gætu sótt lækni til Ísafjarðar; það er satt, og hefir líka verið reynt, en eins og eg skýrði frá áðan, þá neitaði Ísafjarðarlæknirinn að fara, og afleiðingin af læknisleysinu varð því sú, að maður dó, sem áreiðanlega hefði verið hægt að bjarga, ef í lækni hefði náðst — maðurinn dó nefnilega af kviðsliti. Háttv. 5. kgk. þm. sagði að nota mætti símann til þess að ná í lækni, en það taka nú ekki allir læknar því með þökkum, að það sé aðeins símað til þeirra, og þeir beðnir að koma; þeir eiga heimtingu á að þeim sé sendir hestar og fylgdarmaður, eða bátur. Og enda þótt eg viti, að síminn kemur hér að nokkrum notum, og að margir læknar taka mannúðlega í slíkar beiðnir, og sjá sér sjálfir fyrir fylgd og hestum, þá er þó varlega mikið treystandi á símann í þessu efni.

Skal eg svo ekki fjölyrða meira um mál þetta, en vona að deildin líti á það með sanngirni, og fallist á að hér sé um nauðsynjamál að ræða.