04.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

39. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Jens Pálsson:

Eins og fyrirsögn frumvarpsins ber með sér, er hér farið fram á að fá lögleiddan nauðsynlegan viðauka við lög frá síðasta þingi, staðfest af konungi, um bæjarstjórn í Hafnarfirði.

Þau atriði, sem þetta frumv. felur í sér, eru ekki að finna í lögunum um bæjarstjórn í Hafnarfirði, að öðru leyti en því, að 15. gr. laganna gerir ráð fyrir byggingarnefnd, og 16. gr. fyrir hafnarnefnd. En í lögunum er ekkert nánara ákveðið um, hver séu réttindi og skyldur þessara nefnda. Þetta frumv. inniheldur skýr og nauðsynleg ákvæði um þetta.

eru nokkur ákvæði um þessar nefndir og þá nokkur ákvæði til hjálpar bæjarstjórninni, ef til framkvæmda kemur vatnsveita við hennar tilstuðlan. Nú er því þannig varið, að þar hefir verið komið á vatnsveitu í pípum neðanjarðar, en fyrirtækið er ekki svo stórvaxið, að það sé fullnægjandi öllum húsum og heimilum, því að fólkið og bygðin eykst. Nú getur hugsast, að bærinn taki þessi fyrirtæki að sér sjálfur. Þá vantar nauðsynlegar reglur, sem bæjarstjórnin gæti stuðst við, viðvíkjandi vatnsskatti og skyldum kaupstaðarbúa til að leggja land til undir vatnsveituna. Þetta frumv. hefir alt þetta að geyma, og ákvæðin eru nauðsynleg fyrir þetta unga og upprennandi bæjarfélag.

Þar sem þetta frumv. er stórt og efnismikið, hefi eg ekki á móti nefnd í sjálfu sér. En af því að frumv. fyrir mér er ljóst og vel samið, finn eg ekki ástæðu til að stinga sjálfur upp á nefnd. En af því einn háttv. þingdm. hefir bent mér á einn stað í frumvarpinu, þar sem honum þótti ekki sem skýrast orðalag, er eg ekki móti nefnd.