11.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 731 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

39. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Framsögum. (Jens Pálsson):

Eins og eg gat um við 1. umræðu, er tilgangurinn með þessum lögum sá, að útvega Hafnarfirði nauðsynleg lagaákvæði um nokkur atriði, sem hafa mikið gildi fyrir framþróun kaupstaðarins og alt félagslíf þar. Atriði þessi eru byggingarnefnd kaupstaðarins og verksvið hennar, hafnarnefnd og starfsvið hennar, og svo framkvæmd vatnsveitu, er bærinn býst við að þurfa að taka að sér og hafa með höndum bráðlega.

Í undirbúningi málsins var kostað kapps um, að koma ákvæðum þessum fyrir í lagaformi á sem hagkvæmastan hátt, og í annan stað að laga þau sérstaklega eftir staðháttum og nauðsynjum kaupstaðarins.

Eg skal rekja greinar frumvarpsins og gera grein fyrir, eftir hvaða fyrirmyndum var sérstaklega farið.

Við samning 1. gr. var sérstaklega tekið tillit til og farið eftir lögum 16. nóv. 1907 fyrir Ísafjarðarkaupstað, lögum 13. sept. 1901 fyrir Reykjavík og lögum 6. nóv. 1897 fyrir Seyðisfjörð. Við hana er ekkert að athuga.

2. gr. er aðallega sniðin eftir nefndum lögum fyrir Ísafjörð og Reykjavík og hefir nefndin heldur ekki gert neinar breytingar á henni.

gr. er sniðin eftir nefndum lögum fyrir Seyðisfjörð, og eftir tilsvarandi ákvæðum í byggingarnefndarlögum hinna kaupstaðanna.

3. gr. er sniðin eftir nefndum lögum fyrir Seyðisfjörð, og ákvæðum í byggingarsamþykt Reykjavíkur 7. sept. 1903. (5. og 32. gr.). Í henni eru hegningarákvæði, 4—200 kr. sektir, og eru þau sett þar eftir ákvæðum í brunamálalögunum 22. nóvbr. 1907, 12. gr. um tilsvarandi brot.

Við 4. gr. er það að athuga, að nefndinni þótti vanta í hana eitt ákvæði. Þar er bannað hverjum einum að byrja á að byggja hús eða breyta, eða gera önnur mannvirki á lóð sinni, án þess að fá áður skrifleg ákvæði bæjarstjórnar eða byggingarnefndar um það, hvort hann megi byggja og á hvern hátt. En ekkert ákvæði er í greininni um það, hve lengi megi standa á leyfi eða samþykt bæjarstjórnar eða byggingarnefndar. Nefndin var sammála um það, að varhugavert væri að engin takmörk væru sett fyrir því, hve lengi megi draga að veita leyfið. Það kom til orða í nefndinni að tiltaka nokkurra, t. d. 5—8 daga frest, en þótti þó varhugavert, af því að komið getur fyrir að bæjarstjórnin eða byggingarnefndin þurfi lengri tíma til að gera út um málið, t. d. ef um stærri fyrirtæki, bryggjusmíði eða þessleiðis er að ræða, og ráðgast þarf við sérfróðan mann áður en byggingarleyfið verði gefið. Því þætti hentugra að áskilja í lögunum, að tekið verði upp í byggingarsamþykt kaupstaðarins ákvæði hér að lútandi, þá er það á valdi bæjarstjórnar og landstjórnar, er samþykkja á byggingarsamþyktina, að kveða hentuglega á um þetta.

Í 5. gr. eru nauðsynleg ákvæði, sem tekin eru upp eftir nefndum lögum fyrir Seyðisfjörð og byggingarnefndarlögum kaupstaðanna yfir höfuð; þó er sú breyting gjörð frá þeim, að gert er ráð fyrir að byggingarnefndin í Hafnarfirði sé ekki sjálfstætt stjórnarvald, heldur starfi undir umsjón bæjarstjórnar, svo að hún sé það eiginlega byggingarvald. Nokkrar orðabreytingar leggur nefndin til að sé gjörðar á þessari grein; henni þótti orðalagið sumstaðar ekki sem hentugast.

Þá vil eg taka þetta fram viðvíkjandi br.till. við 5. gr. í frv. stendur að eins að »breikka« stræti, en okkur þykir það ófullnægjandi, og þess vegna rétt að taka það einnig fram, þegar þarf að leggja stræti, og eins hitt þegar þyrfti að breyta stefnu strætis. Hinar br.till. við 5. gr. eru teknar upp úr eldri lögum samsvarandi, af því að það þótti sléttara og fallegra mál.

Í 6. gr. kemur frumv. til hafnarinnar, hafnanefndar og hafnarmálefna kaupstaðarins, og hún er samhljóða gr. Í lögum um bæjarstjórn á Akureyri frá 10. nóv. 1895, og Ísafirði frá 16. nóv. 1907. Þar höfum við nefndarmenn orðið ásattir um að eðlilegra sé að breyta röð og setningaskipun síðari hluta greinarinnar, þannig að greinin endi á sektarákvæðunum, en ákvæðið um að gjaldið renni í hafnarsjóð, verði á undan. Skal eg geta þess, að hegningarákvæðin, sektir alt að 400 kr. fyrir brot á hafnarreglugerðinni og misbrúkun á höfninni, eru í samræmi við lög 10. nóv. 1905 og er þessvegna ekkert nýtt.

7. gr. er samin í samræmi við fyrnefnd lög fyrir Akureyri og Ísafjörð; þar þótti okkur viðfeldnara að sleppa úr »tveim« í næst síðustu línu greinarinnar, og álitum nægilegt að hafa að eins »dómkvöddum«, en láta hitt atriðið um hversu margir þeir væru, fara eftir því, sem réttarvenja er í það og það skiftið.

Síðasta br.till. er til að laga prentvillu, sem hafði skotist inn og þarf því ekki að gera frekari grein fyrir henni.

Eg ætla þá ekki að tala fleira að svo stöddu, en vona að frumv. sé svo úr garð gert, að ekki þurfi að bæta marga smíðisgalla á því, og fel því málið háttv. deild til beztu fyrirgreiðslu.