19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

42. mál, gagnfræðaskólinn á Akureyri

Sigurður Stefánsson:

Eins og háttv. deild er kunnugt, var frumv. því, sem háttv. 6. kgk. þm. bar fram um breyt. á lögum um gagnfræðaskóla á Akureyri, vísað til nefndarinnar, sem hafði að fjalla um gagnfræðaskóla á Ísaf., en háttv. 6. kgk. þm. tók aftur. Í stað þess að breyta frumv., kom nefndin sér saman um að koma með nýtt frumv., af því að breyt. á frumv. hefðu orðið svo vaxnar, að þá hefði orðið lítið eftir af lögunum. Frumv. fer fram á, eins og kunnugt er, að bæta við einum kennara, en láta laun hinna kennaranna sitja við það sem nú er. Við lítum svo á, að það sé skylda landsjóðs að skera ekki fjárframlög til mentastofnana þeirra, er hann á að kosta samkvæmt lögum, svo við neglur sér, að þær geti ekki komið að tilætluðum notum. Háttv. þm. hafa frumv. fyrir sér; þarf eg því ekki að fara langt út í það, enda hefir háttv. 6. kgk. þm. talað um það við 1. umræðu, en hann er málinu kunnugastur.

Nefndin leggur til að bæta við einum kennara; aftur á móti fann hún ekki ástæðu til að hækka laun þessara kennara einna, af því að innan skamms má búast við beiðni um launahækkun frá flestum skólakennurum landsins. En á þessu þingi verður fráleitt neitt átt við það mál. Nefndin fann því ekki ástæðu til að fara að taka þessa kennara eina út úr hópnum. En það er álit nefndarinnar, að laun kennara, sem annara embættismanna, séu nú orðin tiltölulega miklu lægri en þau voru fyrir nokkrum árum, sökum þess hve miklu dýrari allar lífsnauðsynjar nú eru orðnar en þegar launalögin voru gefin 1889, og hvað kennara þá sem hér ræðir um snertir, þá er auðvitað dýrara fyrir þá að lifa á Akureyri, en á Möðruvöllum, þar sem skólinn var áður. En þrátt fyrir þetta vill nefndin fresta hækkun launa núverandi kennara til þess að láta eitt yfir alla. ganga. Annars skal eg ekki fjölyrða frekar um málið og leyfi 47 mér að vísa til nefndarálitsins. Og í nafni nefndarinnar vil eg fela háttv. deild málið til beztu meðferðar. Þrátt fyrir það þótt þessi fasti kennari fengist, yrði skólinn þó að lifa við mjög mikla aukakenslu. Og það er ekki til góðs fyrir neina stofnun að lifa sama sem á bónbjörgum.