13.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (58)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Það hafa ekki verið langar umræður um fjáraukalögin á undanfarandi þingum, og það er heldur ekki ástæða til að halda langar ræður um þetta frv. nú.

Eins og háttv. deildarmönnum er kunnugt, er fjárhagur landsins nú svo, að í lok næsta fjárhagstímabils var tekjuhallinn áætlaður yfir hálfa miljón kr. Þetta er ekki glæsilegt, enda er nefndin öll ásátt um það, að draga beri úr útgjöldunum svo sem fært er. Um þetta var nefndin sammála, en um hitt var nokkur ágreiningur, hvar sparnaðurinn ætti að koma niður.

Fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar get eg tekið það fram, að þó að hann fari fram á sparnað í ýmsum greinum, er það ekki af því, að hann álíti vera um óþörf útgjöld að ræða, eða að þau fyrirtæki séu óþörf, sem hann ræður til að fresta. En vér álítum fjárhagshorfurnar svo ískyggilegar, að ekki sé þorandi annað en spara svo mjög sem frekast er unt án stórvægilegs tjóns fyrir land og lýð. Það þarf mikilla lækninga við á því fjárhagslega ásigkomulagi, sem hér yrði í landinu, ef fjáraukalög og fjárlög yrðu samþykt óbreytt eins og þau komu frá neðri deild. Tekjuhallinn var nær því hálf miljón kr. eftir stjórnarfrumvörpunum, og hefir aukist enn við breytingar neðri deildar. Þetta álítur nefndin svo hættulega fjármálastefnu, að hún þykist ekki geta forsvarað annað fyrir þjóðinni, en að draga nokkuð úr útgjöldunum, jafnvel þó að þá verði að fresta nokkrum nauðsynlegum fyrirtækjum.

Samkv. tillögum nefndarinnar nemur lækkunin á gjöldum frumv. 57,400 kr. En hins vegar vill nefndin bæta við nýjum liðum, sem auka útgjöldin um 2,800 kr. Svo að lækkunin nemur samtals 54,600 kr. — Eg get verið fáorður um breytingartillögur nefndarinnar og látið mér nægja að mestu að vísa til nefndarálitsins.

Stærsti sparnaðurinn er innifalinn í því, að meiri hluti nefndarinnar ræður til að fresta bygging brúarinnar á Ytri- Rangá. Þessi fjárveiting átti erfitt uppdráttar í neðri deild, og hefir mikill hluti neðri deildar verið sömu skoðunar og meiri hluti nefndarinnar hér í deildinni. Þess vegna má vænta þess, að það mæti ekki mikilli mótspyrnu í neðri deild, þó að þessi fjárveiting verði feld burt; en á það leggur nefndin mikla áherzlu, því að í neðri deild á þungamiðja fjárveitingarvaldsins að vera. Eg vil taka það fram, að það er alls ekki af neinum pólitískum flokksástæðum, að meiri hluti nefndarinnar ræður til þessarar úrfellingar; enda ætti slíkt að vera útilokað, þegar um fjárveitingar til framfarafyrirtækja er að ræða, og það mun líka sýna sig, að sparnaður á fjárveitingum hér í deildinni kemur niður á fleiri héruðum en þessu.

Eg skal geta þess, að í 1. lið frumv. eru færðar 10 þús. kr. til Grímsnesbrautar. Þessa fjárveitingu hefir nefndin látið standa. Hér er um bráðnauðsynlegar umbætur á þessum vegi að ræða, sem ekki má fresta, og þess vegna er þessi fjárveiting færð á þetta frumv.

Þá eru 11,500 kr. til Fagradalsbrautar. Sú fjárveiting kom inn í frumv. í neðri deild, og var nefndinni ekki ljóst, hvernig á henni stóð. En eftir upplýsingum, sem nefndin fekk frá verkfræðing landsins, gat hún fallist á að láta þessa fjárveiting standa.

Loks vill nefndin líka láta standa fjárveitinguna til Holtavegs, Eyrarbakkabrautar og Eyjafjarðarbrautar. Sú fjárveiting nemur 15,000 kr. og getur orðið til þess, að þær brautir verði tilbúnar og afhentar héruðunum til viðhalds haustið 1911. — Nefndin tekur það skýrt fram, að hún ætlast til þess, að bæði þessar brautir og eins Fagradalsbraut verði afhentar héruðunum til viðhalds jafnskjótt og lög heimila.

Þá vill nefndin fella burt 4000 kr. til vegagerðar við Lagarfljótsbrú. Nefndinni var ekki vel kunnugt, hve mikil nauðsyn er á þessum vegi, en hitt veit hún, að það er hvorki þjóðvegur né flutningabraut, og því sýnist ekki nauðsynlegt, að landsjóður kosti þennan veg. Nefndin getur ómögulega mælt með því, ofan á öll þau ósköp, sem landsjóður er búinn að kosta til Fagradalsbrautar. Annaðhvort er, að það liggur ekki mjög mikið á þessum vegi, eða þó svo væri,

þá er héraðinu varla ofvaxið, að standa straum af þessari vegarlagningu sjálft. Það er naumast hægt að ætlast til, að landsjóður leggi enn meir til Fagradalsbrautar eða þeirra vega, sem standa í sambandi við hana, umfram þessa upphæð, sem nú er veitt á fjáraukalögunum til að fullgera sjálfa brautina.

Þá er 3000 kr. fjárveiting til brúargerða á Gríshólsá og svokölluð Síki í Helgafellssveit. Þá upphæð vill nefndin lækka um 1000 kr., láta þær 2000 kr. sem eftir verða, ganga til að brúa Gríshólsá, sem mun nægja eftir áliti verkfræðingsins, en fresta brúargerð yfir þetta svonefnda Síki. Að vísu liggur þetta Síki á þjóðveginum til Stykkishólms, en það mun ekki vera svo mikil torfæra, að það liggi á að brúa það að þessu sinni.

Þá er styrkurinn til Austfjarðabátsins. Nefndin vill gera það að skilyrði fyrir styrknum, að báturinn fari 3 ferðir til Víkur og Vestmannaeyja. Það hafa komið fram óskir um að báturinn fari þessar ferðir, og sýnist nefndinni ekkert á móti því, að setja þetta skilyrði, einkum þar sem búast má við, að mikill flutningur fáist í þessar ferðir og að þær verði því arðvænlegar.

9. br.till., við 3. gr D. II. 6., er sams konar og ákvæðið í stjórnarfrumv., og getur nefndin fallist á þær ástæður, sem eru færðar fyrir því í athugasemdunum við frumvarpið. Öll upphæðin er 8000 kr., en þar af eiga héruðin að leggja til 2000 kr. í samræmi við önnur ákvæði, þegar um símalagning er að ræða.

Þá vill nefndin fella burtu liðinn 6. í 3. gr. E. Það er 10000 kr. fjárveiting til þess að mæla skipaleið inn Gilsfjörð. Það er ekki að vita, hvernig þessari úrfelling verður tekið í neðri deild; en auðvitað verður að taka því sem hún kann að gera í því máli.

Þá leggur nefndin til að fella burt 4. gr. A. b., sem er 400 kr. til viðgerða á kirkjum, sem eru landsjóðseign. En þar sem mjög nýlega hefir farið fram aðalviðgerð á kirkjum þessum,—þær verið málaðar, járnvarðar o. s. frv., —þá álítur nefndin, að tekjur kirknanna muni hrökkva til þess að gera þær umbætur, sem enn kynni að vera þörf á.

Þá leggur nefndin til, að lagaskólanum séu veittar 800 kr. til bókakaupa. Skóli þessi er ný og bókalaus stofnun, og nefndin lítur svo á, að jafnskylt og löggjafarvaldinu er að fara varlega í að koma upp nýjum stofnunum, jafnskylt sé því að sjá fyrir, að þær stofnanir, sem þegar hafa verið reistar, komi að sem fylstum og beztum notum. Auk þess er hér um íslenzka sérfræðigrein, þar sem er algerlega óruddur akur, að ræða. Nefndin hefir þó, til þess að miðla málum, fært fjárveitinguna niður um 200 kr. frá því sem hún var í stjórnarfrv., og vonar því, að neðri deild taki uppástungu nefndarinnar vel, og fallist á að hér sé um nauðsynlega fjárveitingu að ræða.

Þá leggur nefndin til, að veita 2 síldarmatsmönnum, öðrum á Siglufirði hinum á Eyjafirði, 600 kr. hvorum, auk 800 kr. til utanfarar, til þess að kynnast síldarverkun. Svo sem hinni háttv. deild er kunnugt, kom í vetur fram frv. um að lögskipa mat á allri síld, er út er flutt. Nefnd sú, sem deildin skipaði til þess að íhuga frv. þetta, komst að þeirri niðurstöðu, að réttast væri að fara stjórnarleiðina, og láta hana undirbúa málið, eins og gert var að því er fiskimatið snerti, og fyrir því réð hún frá því, að samþykkja frv. um lögskipað síldarmat, en vildi hins vegar skora á stjórnina að skipa nú þegar 2 matsmenn á síld, sem úr landi er flutt, og búa þetta mál að öðru leyti undir næsta þing. Deildin félst á tillögur hennar, og þess vegna verður að veita fé til matsmanna þessara á fjáraukalögunum. Þóknunina taldi nefndin ekki fært að hafa lægri en 600 kr. til hvors, því að bæði er það, að starf þeirra að mestu leyti fellur á mesta annatíma ársins, og að það er mjög áríðandi, að þeir menn fáist til að taka starfann að sér, sem til þess hafa bezta hæfileika og þekkingu, og til þess að tryggja það enn betur, að þeim sé ekki áfátt að því er þekkingu snertir, vill nefndin veita þeim 800 kr. til utanfarar, svo sem áður er sagt. Aðalveiðitíminn er að vísu ekki nema 2½ mán., en nefndinni hefir verið skýrt svo frá, að matsmenn þessir myndu hafa nóg að gera alt frá byrjun veiðitímans og fram til jóla.

Orðabreytingin »pósthúsinu« í stað »pósthúskjallaranum« er gerð eftir ósk póstmeistara, sem vill fá að ráða því, hvort honum þykir heppilegra, að hafa skápinn uppi í húsinu eða niðri í kjallara.