14.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

46. mál, verslunarbækur

Lárus H. Bjarnason:

Eg hefi því miður ekki getað athugað þetta mál nógu rækilega, jafnmerkilegt og það er. Það er merkilegt vegna þess, að það miðar að því að tryggja viðskifti manna, og er sízt vanþörf slíkra laga nú á tímum. Það er þó ýmislegt í frv. og tillögum nefndarinnar, sem eg tel athugavert. Eg tel að það geti verið til mikilla nota, að löggilda frumbókina. Inn í hana er fært alt það, sem látið er út úr verzluninni, jafnótt og það er afhent, sé það ekki borgað við móttöku. Víða er og alt, sem lagt er inn í verzlunina, fært inn í frumbók, ef ekki er tekið út á það um leið. En víða er ekki fært inn í höfuðbókina úr frumbókinni, nema á vikufresti. (Gunnar Ólafsson: Daglega). Það má vera, að nú sé orðinn siður að færa inn í höfuðbókina daglega, en það er eigi að síður mjög nauðsynlegt að frumbókin sé löggilt og gegnumdregin, svo að eigi sé unt að rífa blöð upp úr henni, án þess að á beri, og helzt vildi eg hafa allar verzlunarbækur löggiltar, enda þótt eg játi að það sé töluvert kostnaðarsamt fyrir kaupmennina.

Hins vegar játa eg að löggilding er hvergi nærri einhlít, og er alveg samdóma nefndinni um, að ágætt sé að hafa frumbókina þannig út búna, að hvert blað í frumbókinni hafi viðfest samritsblað þannig, að það, sem skrifað er á fremra blaðið, komi fram á aftari helmingi blaðsins í samriti, og að viðskiptamaður fái frumritið, en verzlunin haldi hinu eftir. Í 3. gr. er þess krafist, að haldin sé bréfabók, er hafi að geyma samrit af öllum þeim bréfum frá verzluninni, er lúta að verzlunarviðskiftum, en eigi slík bók að koma að fullu gagni, ætti að halda saman öllum viðskiftabréfum, er verzlunin fær.

Þá er og ofþung refsing lögð við því, að breyta því sem eitt sinn hefir verið ritað í verzlunarbók. Sektir eru nægilega hörð hegning, ef ekki er um fjárdrátt að ræða. En eins og greinin er orðuð nú, væri hægt að refsa manni með fangelsi eða betrunarhúsvinnu jafnvel fyrir það eitt, að hann leiðrétti það er misritast hefði hjá honum, þótt hann hefði engan sviksamlegan tilgang haft. Það ætti því að fella burt fangelsi og betrunarhúsvinnu, því að sektir eru næg refsing, ef ekki er um svik að ræða, en annars fellur brotið undir ákvæði hinna almennu hegningarlaga, og þau eru nægilega hörð. Af ástæðum þeim, er eg áður hefi tekið fram, er eg mótfallinn breytingartillögu nefndarinnar við 5. gr., að í stað »löggiltar« komi »lögskipaðar«. Eg vil með engu móti missa löggildinguna.

Í 7. gr. er lagt fangelsi við vatn og brauð, eða betrunarhúsvist, við því að falsa verzlunarbækur. Það er nú vafasamt, hvort rétt er að kalla það fölsun, þótt bókari breyti því, er hann áður hefir ritað. Með fölsun meina menn venjulega að breyta því, er aðrir hafa ritað, eða gefa heimildarlaust út skjal í annara nafni. En það skiftir nú ekki miklu máli, þótt orðalagið sé ekki alveg nákvæmt, hitt er lakara, að grein þessi er ekki í samræmi við 264. gr. almennra hegningarlaga, að því er hámark refsingarinnar snertir. Í 264. gr. hegningarlaganna er hámarkið 2 ár, en hér getur refsingin orðið 6 ára betrunarhúsvinna. En enda þótt 264. gr. hegningarlaganna ræði um sama eða svipað brot, álít eg þó ekki heppilegt, að í lögum þessum verði aðeins vísað til hennar, því að henni mun því aðeins verða beitt, að kaupmaðurinn verði gjaldþrota. En hitt álít eg sjálfsagt, að setja hámark refsingarinnar í samræmi við 264. gr. hegningarlaganna. Þá vildi eg skjóta því til nefndarinnar, hvort ekki væri rétt að taka það beinlínis fram í 8. gr., að bókin yrði að vera færð samkvæmt fyrirmælum 2. gr., ætti hún að hafa sönnunargildi.

8. breytingartillöguna tel eg meinlausa en óþarfa; 17. og 18. gr. tilskipunarinnar frá 13. júní 1787 er aldrei beitt nú á dögum, þótt þær hafi ekki verið formlega úr gildi feldar. Skal eg svo ekki orðlengja þetta frekar, en vona að háttv. deildarmenn hugsi sig vel um, áður en þeir fella burtu löggilding frumbókarinnar, því að það er mjög athugavert.