17.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

46. mál, verslunarbækur

Lárus H. Bjarnason:

Eg álít breytingartillögur nefndarinnar flestar til bóta. En þær hefðu helzt átt að vera fleiri. Allar verzlunarbækur ættu að vera löggiltar.

Þó finst mér ein breytingartill., sú við 1. gr. frumv., vera heldur til skemda. Það er ekki heppilegt, að í höfuðbókina séu aðeins ritaðar upphæðirnar í krónum og aurum. Að vísu er ætlast til að hver skiftavinur fái samrit af viðskiftunum í hvert sinn, eins og þau eru bókuð í frumbókina. En þessi samrit geta glatast, og þá er hlutaðeigandi engu nær, Það dugar ekki að vitna í tilhögun á slíku í öðrum löndum. Þar er nálega öll verzlun svo, að hönd selur hendi, en hér er lánsverzlunin almenn. Þessa breytingu álít eg því heldur til hins verra.

Eins og eg gat um, sakna eg ákvæðis um það, að verzlunarbækurnar skuli vera löggiltar. Og eg sakna líka ákvæðis um að halda skuli saman bréfum, sem koma til verzlunarinnar, til samanburðar og skilningsauka á bréfum frá verzluninni. Eg hefði komið með breytingartillögur ef eg hefði fengið frumv. fyr. En nú er frumv. til 3. umræðu, svo að það verður ekki lagað héðan af. Eg skal ekkert segja, hvort réttara er, að samþykkja frumv. nú og hætta á að neðri deild geri umbætur á því, eða fella það, úr því að umbótum verður ekki komið fram hér í deildinni. Þó mun eg líklega heldur taka þann kostinn, að greiða því atkv.