06.05.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

46. mál, verslunarbækur

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg er upphafl. höfundur þessa frumv. og var framsögumaður málsins í Nd. En er málið kom til nefndarinnar aftur í Nd., varð eg svo óheppinn að lenda í minni hluta; því eg vildi að frumv. yrði samþykt óbreytt eins og það kom frá Ed.

Eg er viss um, að þótt frumv. sé samþ. eins og Ed. hefir látið það frá sér fara, þá er það bezta lagabót, en alveg ótækt að fella það, eins og hinn háttv. 1. þm. G.-K. vildi. Sami þm. hafði það á móti, að ekki væri hægt að skrifa í þessar bækur með bleki. En það er misskilningur hjá háttv. þm. Það er jafnhægt að skrifa með bleki eins og stýl, og kemur mjög greinilega út á hinu blaðinu, sem í bókinni verður eftir.

Þar sem því er haldið fram, að þetta fyrirkomulag sé með öllu óþekt út um land, og að kaupmönnum muni veita erfitt að ná sér í slíkar bækur, þá hygg eg, að það geti ekki náð nokkuri átt. Það mun naumast sá kaupmaður, að hann geti ekki á 1—2 mán. útvegað sér ársforða af slíkum bókum; bækurnar eru ódýrar og skipaferðir svo tíðar, að það mun varla vera sú verzlunarhola, sem ekki eigi tök á að fá þessar bækur — að minsta kosti fyrir næsta nýár.

Eitt var það enn, er háttv. 1. þm. G.-K, sagði. Hann bjóst við því, að ef útlendingar kæmu hér og sæu frumbækurnar, þá mundi þeim ekki finnast til um fráganginn á þeim; en þetta gæti rýrt lánstraust vort meðal þeirra.

Eg vil nú leyfa mér að spyrja: Hve mörg eru þau lönd, þar sem frumbækur eru löggiltar? Mér er ekki kunnugt um þau séu mörg; að vísu veit eg til þess, að svo er í Danmörku, en þá mun líka að mestu upptalið. Það er að minsta kosti svo, að það tíðkast ekki í enskumælandi löndum, svo sem Englandi, Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu o. fl., og munu þær þjóðir þó ekki njóta minna lánstrausts fyrir þá sök. Þær þjóðir nota nær einvörðungu þess leiðis bækur, sem hér er fram á farið.

Þá þótti hinum háttv. þm. það ekki gott, að bækurnar gætu ekki verið sönnunargagn nema eitt ár, í stað fjögurra. En þetta er samkvæmt því, sem tíðkast í löggjöf annara Norðurlanda, og þarf ekki annað en fletta upp í verzlunarbók Hages til að sjá þetta.

Þá gat sami háttv. þm. þess, að þessi tilhögun (um afritin) væri óþekt úti um land, og að menn myndi ófúsir á að breyta til. En hún er þegar tíðkuð á ýmsum stöðum út um land, og reynslan hefir sýnt, að aðferðin hefir hepnast mjög vel; ef viðskiftamaðurinn fær afrit í hvert sinn, er hann hefir einhver viðskifti við verzlunarmanninn, þá getur hann rólegur synjað með eiði fyrir alt annað en það, er á því afriti stendur, þótt krafinn yrði frekar.

Eg vil því ráða háttv. samein. þingi til að samþykkja frumv. óbreytt, — og fella það að minsta kosti ekki, þótt breyt.till. yrði samþykt, því að eg tel í því felast mikla réttarbót, ekki einungis í eiginlegum verzlunarefnum, heldur einnig í öllu viðskiftalífi manna yfir höfuð.