06.05.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

46. mál, verslunarbækur

Björn Kristjánsson:

Eg skal geta þess, að eg hefi reynt að skrifa með bleki og penna, en það verður ólæsilegra en ef skrifað er með blýant eða stýl. Eins og sjá má hér (á þessu blaði), þá verður skriftin ekki greinileg með bleki og penna, þótt skrifað sé með töluvert feitu letri.

Eg hygg því, að óheppilegra sé, að hafa til þessa penna og blek, með því að þá verður skriftin óljósari.

Það mun að vísu vera rétt, er háttv. 2. þm. S.-M. gat um, að ekki væri það venja í öðrum löndum að löggilda verzlunarbækur, en hér á landi hefir það þó tíðkast, og kostnaðurinn er ekki mikill við það — að eins 2 kr. fyrir hverja bók. Enda er það í rauninni ekki of mikil trygging, úr því að bækurnar eiga að vera sönnunargögn á annað borð.

Um venjuna í öðrum löndum skal eg að vísu ekki fullyrða, en þó mun það tíðkast í nágrannalöndunum, t. d. Þýzkalandi, Danmörku og jafnvel í Englandi (eg hefi sjálfur séð það þar), og úr því að svo er, þá virðist ekki óviðeigandi að sníða vort fyrirkomulag í þessu efni eftir þeim nágrannalöndunum, þar sem varla mun vera um neitt ófullkomið að ræða í þeirri grein, og þar sem við rekum aðalviðskifti vor.

Og það mundi ekki vekja traust útlendinga, ef þeir sæju einhvern ómyndarbrag, t. d. á bókum þrotabús. Það myndi fremur spilla lánstrausti voru.

Skal eg ekki þrátta neitt um þessa tilhögun; og þykist eg vita, að háttv. sameinað þing geri það sem því sýnist í þessu efni. En eg vildi að eins benda á þessa tilraun, er meiri hluti nefndarinnar hefir gert til þess að ekkert þyrfti að óttast.