19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Þess er þá fyrst að geta, að fjárlaganefndin hefir ekki gert neinar teljandi breytingar við tekjukaflann; enda hefir Nd. ekki breytt honum svo teljandi sé frá áætlun stjórnarinnar. Líkt er að segja um útgjaldakaflann aftur að 13. gr. Þegar maður athugar tekjur landsins og það sem þær eru miðaðar við, þá er þess að gæta, að undanfarin ár hafa verið góðæri til lands og sjávar í verzlun og viðskiftalífi öllu með þjóð vorri. En það þarf ekki mikið á að bjáta í atvinnuvegum og verzlun landsins til þess að tekjuáætlun reynist heldur of lág en of há. Nefndinni eða meiri hluta hennar lízt svo á allan hag landsmanna nú í verzlun og viðskiftum, að ástæða sé til að fara mjög varlega í útgjöldum landsjóðsins. Yfir höfuð hefir fjárlaganefndin verið sammála um það, að það sé skylda hvers þings að reyna að ganga þannig frá fjárlögunum, að tekjuhallinn sé sem minstur. Því með því einu móti getur fjárhagur landsins haldist í lagi. Sé þessari sjálfsögðu reglu ekki fylgt, þá er óhjákvæmilegt, að fjárhag landsins hlýtur að hnigna; og rekur þá að því, að grípa verður til viðlagasjóðsins, til að jafna með tekjuhallann. Á vissum tímabilum geta auðvitað verið sérstakar ástæður fyrir hendi, sem heimta, að breytt sé út af þessari stefnu. En að jafnaði mun þó hinn kosturinn beztur, að halda sér fastlega að fyrnefndri stefnu; og svo er að voru áliti nú. En vegna þess, að þær ástæður, sem vér berum fyrir oss í þessu efni, eru fram teknar í nefndarálitinu, skal eg ekki fjölyrða um þær hér.

Um fjárlögin í þetta sinn er það að segja, að fráfarandi stjórn tókst ekki að gera þau svo úr garði, að tekjur og gjöld stæðust á, heldur skildist hún við þau með 480 þús. kr. tekjuhalla. Þessi tekjuhalli óx nefndinni svo mjög í augum, að ekki þótti viðunandi, þótt hann að vísu sé ekki mjög athugaverður þegar litið er til útgjalda undanfarinna ára. En þar sem tekjuhallinn þó er ekki minni en þetta sem eg tók fram, þá hlýtur það þó að verða til þess að hvetja þingið til alls sparnaðar. Því þótt nú að vísu fjárhagur landsins sé ekki verri en hann er, þá er það sízt að þakka góðri fyrirsjón stjórnar og þings, heldur þvert í móti hinu, að svo hefir til viljað vegna góðæris til lands og sjávar og í verzlun og viðskiftum, að tekjurnar hafa farið ærið mikið fram úr áætlun nú síðustu árin. Ef árferðið hefði ekki verið eins gott og það hefir verið, þá mundi tekjuhallinn við lok síðasta fjárhagstímabils hafa skift hundruðum þúsunda. En þrátt fyrir það er þó alls ekki rétt að reikna jafnörugglega með hinum áætluðu tekjum nú sem undanfarin ár. Hvert sem litið er nú, verða fyrir manni vandræði og illar horfur, hvort heldur til lands og sjávar, í búskap, útgerð, kaupskap og atvinnuvegum öllum.

Þegar horfurnar eru þannig að við blasir reglulegt vandræðaástand, að heita má, í landinu, þá er óhjákvæmilegt að horft sé með áhyggju fram á ókomna tímann. Einmitt þá er hvað mest varhug við gjaldandi að samþykkja útgjöld, sem mikinn kostnað hafa í för með sér fyrir landsjóð. Því það eru einmitt næsta litlar líkur til þess, eins og hagur þjóðarinnar er nú, að hinar áætluðu tekur hrökkvi fyrir hinum áætluðu útgjöldum, hvað þá meir. Það eru þegar í ljós komin svo mörg merki þess, að næsta fjárhagstímabil verði ekki eins notadrjúgt og frjósamt fyrir landsjóð eins og það, sem hér gekk næst á undan. Þar að auki er nú einmitt þingið, sem kunnugt er, að samþykkja lög, sem vitanlega hafa í för með sér feykilegan fjárhagshalla fyrir landsjóðinn. Eg á við aðflutningsbanns-lögin.

Það er ekki of hátt að áætla 300,000 kr. tekjumissi eftir þeim lögum, er þau ganga í gildi. En það kemur auðvitað ekki til á næsta fjárhagstímabili; en því ver fer síðar ef illa er búið í garðinn nú. Auðvitað er í ráði að breyta skattalöggjöf landsins, eins og öllum þingmönnum er kunnugt. En það er líka kunnugt, að sú nefnd hefir ekki gert ráð fyrir að bæta landsjóði að neinu þennan tekjumissi. Svo ef tekjuhallinn á næstu fjárhagstímabilum verður meiri en áætlað er, þá þarf að bæta við tekjumegin a. m. k. þeim 300 þús. kr., sem tapast á aðflutningsbannlögunum. Haldist sú óáran sem nú á sér stað í verzlun og viðskiftum landsmanna, þá hygg eg ekki að það verði vinsælt verk fyrir þingið að demba nú þungum sköttum á þjóðina. Eg álít því, að ráðlegast sé að taka nú þegar þá stefnu að takmarka útgjöldin svo sem unt er til þess að tekjur og gjöld geti staðist á. En því er nú svo varið með fjárlögin, að margir liðir á þeim eru þegar lögskipaðir; og verður fjárveitingarvaldið að inna þá af hendi. Fjársparnaðurinn hlýtur því að koma fram á þeim liðum, sem ákveðnir eru á hvers árs fjárlögum. Gjaldaliðirnir eru margir afarháir; og sumir af þeim eru ætlaðir til fyrirtækja, sem þegar er byrjað á. Og eins leitt og það er að draga af þessum liðum, þá veltur þar þó á stærstum upphæðum. Eg á við fé það sem ætlað er til síma og vega, eins og eg mun koma nánar að. Eg hefi ekki átt kost á því að kynna mér sem skyldi fjárhag landsins. En eg hefi heyrt, að um síðastl. nýár hafi landsjóður skuldað ríkissjóði Dana hátt upp í 1 miljón kr. En nokkuð af þeirri upphæð mun að vísu goldið nú. En þar af leiðir, að fé landsjóðs hefir minkað að sama skapi. Eg hygg, að þinginu muni ekki verða legið á hálsi fyrir það þó það taki þá stefnu, að takmarka útgjöld landsjóðs meir en að undanförnu að þessu sinni. Það væri miklu fremur við því búið, að landsmenn litu illum augum á það, ef þeir sæju að þingið hagaði sér nú í fjárútgjöldum eins og þegar bezt gegnir. Landsbúið er komið undir árferði; og landið verður að sætta sig við, að láta ýms fyrirtæki bíða, þegar illa árar, þótt í sjálfu sér séu nauðsynleg. Það má auðvitað segja um mörg útgjöld, að þau eru stórnauðsynleg, og ekki megi fresta þeim, hvernig sem fjárhagur landsins er. En sé þeirri reglu fylgt, að sníða útgjöldin ekki eftir tekjunum hvernig sem í ári lætur, þá verður líka að grípa til þess, að taka lán til þess að geta int af hendi útgjöldin. Lántaka getur auðvitað verið réttmæt, ef um framkvæmd verulega arðvænna fyrirtækja er að ræða, en varlegar er jafnan í það farandi, að stofna landinu í miklar skuldir, og það tel eg engu óbúmannlegra, að firrast hana sem lengst, með gætinni fjarmálastjórn.