02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

47. mál, löggilding verslunarstaða

Ágúst Flygenring:

Háttv. þm. V.-Sk., framsögum. nefndarinnar, hefir gert grein fyrir frv. við síðustu umræðu. Enda ætla eg ekki að fara neitt út í einstök atriði umfram það, að eg vildi hafa skýrt frá því, að, nefndinni sást yfir að koma með breytingartillögu við frv. að því er snertir Viðey.

Eg þarf varla að taka það fram, að það hefir mælst mjög illa fyrir, þæði innan og utan þings, að Nd. skyldi fella frv., sem þar var borið upp um daginn, um löggilding verzlunarstaðar í Viðey. Því hefi eg fundið ástæðu til að koma með breyt.till. þess efnis, að Viðey verði bætt við á frv. Því, sem hér liggur fyrir um löggilding verzlunarstaða. Eg þarf varla að tala mörg orð til að mæla með þessari breyt.till., því að flestir háttv. deildarmenn munu þekkja nokkuð til staðarins, sem hér er um að ræða, og hann mælir bezt með sér sjálfur. Eg álít það algerlega óviðurkvæmilegt, að vera að samþykkja löggilding verzlunarstaða hingað og þangað, staða sem enginn þekkir og engar líkur eru til, að nokkurn tíma verði notaðir sem verzlunarstaðir, en fella aftur á móti löggilding verzlunarstaðar í Viðey af eintómri hreppapólitík, þó að það sé öllum mönnum kunnugt, að þar er eina höfnin sem telja má trygga hér við Faxaflóa. Árangurinn af slíkri pólitík verður enginn annar en sá, að orsaka óþarfar tafir og baka þeim kostnað, er reka verzlun í Viðey. Því að þeir verzla þar auðvitað alt að einu; þurfa ekki annað en snúa sér til viðkomandi sýslunefndar — eins og þeir hafa gert — og fá leyfi til verzlunar, og munurinn verður þá að eins sá, að ef staðurinn verður ekki löggiltur, verða þeir annaðhvort að láta skip sín koma við í Reykjavík eða Hafnarfirði fyrst, eða senda skipstjórana suður í Hafnarfjörð með skipaskjölin til þess að fá afgreiðslu á þeim, eins og þeir hafa orðið að gera í vor.