02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

47. mál, löggilding verslunarstaða

Ari Jónsson:

Úr því úrskurðurinn féll svona, finn eg ástæðu til þess að segja nokkur orð. Mér þykir það dálítið undarlegt, að um leið og nefndin öll kemur fram með frv., þá skuli einn nefndarmanna koma fram með þessa breytingartillögu, — breytingartillögu, sem einmitt fer fram á löggilding, sem feld hefir verið í hinni deildinni. Eg lít svo á, sem sú breytingartillaga sé banatilræði við frumv. í heild sinni. (Ágúst Flygenring: Ljóti skaðinn). Hvort sem það er nú skaði eða skaði ekki, þá er öllu frv. með því í hættu stofnað, því að tími mun varla vinnast fyrir þingið til þess að afgreiða frv., ef því verður breytt í Nd. Annars hélt eg að háttv. 3. kgk. þm. færi eigi að mæla með þessu frv. sem nefndarmaður, ef hann áliti það einskis virði. En furðu grunsöm og skrítin er breytingartillaga hans, því að engar líkur eru til, að háttv. Nd. verði fúsari til þess að samþykkja löggilding Viðeyjar, þótt ákvæði um það sé skotið inn í frv., er fleiri ákvæði hefir að geyma heldur en frv., er að eins fer fram á þá löggildingu eina, því eins og þingheimur veit, var það frv. fyrir Nd. fyrir nokkrum vikum.