02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

47. mál, löggilding verslunarstaða

Framsögum. (Gunnar Ólafsson):

Það er að eins kurteisi vegna að eg stend upp. Háttv. 3. kgk. þm. afsakaði, að hann ekki gæti gefið mér skilning. Eg er honum þakklátur fyrir umhyggjuna; en annars vildi eg leyfa mér að benda hinum háttv. 3. kgk. þm. á, að það væri nú bezt fyrir okkur að þræta sem minst um málfræðisleg efni; við erum hvorugur sérfræðingar í þeirri grein. En það hefir einkennilega ýfandi áhrif á skapsmuni háttv. 3. kgk. þm., ef Ósar þessir eru nefndir. Eg dreg þá ályktun af orðum hans, að hann alls ekki þekki Íslandskort, en úr því svo er, ætti hann sem minst að tala um það, sem hann ekki hefir þekkingu á. Hann hefir komið í Viðey, en ekki í Skaftárós, þótt hann ef til vill hafi siglt þar fram með ströndinni, og þá líklega ekki farið mjög grunt, jafnhræddur og hann er við þá; en eg þekki Ósana og hefi líka séð Viðey, og verð því að álíta að eg sé kunnugri, — og að minsta kosti þekki eg ströndina í Vestur Skaftafellssýslu betur en háttv. 3. kgk. þm. En honum er auðsjáanlega annast um Viðey og Hafnarfjörð, og kysi sjálfsagt helzt, að á engar aðrar hafnir væri siglt.