26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

47. mál, löggilding verslunarstaða

Ágúst Flygenring:

Eg stend aðeins upp til að mæla með viðaukatill. minni við frumvarpið. Hún fer fram á það, að Viðey sé bætt við þá staði, sem á að löggilda. Það var samþykt hér í deildinni en felt í Nd. Eg ætla ekki að fara að rifja upp ástæðurnar fyrir því, hve réttlátt það er í sjálfu sér, og hve meinlaust það er Reykvíkingum og öðrum, er nærri búa, að Viðey fái löggildingu. Það hlýtur hver maður að sjá, að það er beinlínis sjálfsögð skylda að löggilda Viðey, þegar litið er á aðrar löggildingar, sem hér er farið fram á. Það, að það mundi skaða aðra verzlunarstaði, er engin ástæða út af fyrir sig, því allar slíkar löggildingar skaða auðvitað einhvern annan verzlunarstað, ef um nýja verzlun er að ræða, en hér er ein verzlun. Eg skal taka það fram, að nefndin vildi ekki bera þessa tillögu fram, af því hún hélt að hún gæti orðið málinu, það er: hinum stöðunum, sem gert er ráð fyrir að löggilda, til falls.