26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

47. mál, löggilding verslunarstaða

Framsögum. (Gunnar Ólafsson):

Eg tók það fram við 2. umræðu frumvarpsins, að eg væri ekki mótfallinn þessari tillögu, og mundi vera með henni, meðan frumvarpinu í heild sinni væri ekki hætta búin af henni. Nú hefir Nd. felt löggildingu Viðeyjar, og það er ekki ólíklegt, ef Viðey væri bætt við hér aftur, og málið kæmist í sameinað þing, að þá félli frumvarpið alt, og þess vegna mun eg greiða atkvæði á móti þessari tillögu núna. Mér finst ekki rétt að halda löggilding Viðeyjar svona til streitu, þar sem Nd. er margoft búin að sýna að hún er henni mótfallin. Málið var fyrst felt á þingi 1907, og nú er búið að fella það tvisvar á þessu þingi. Eg vona því að frumv. verði samþykt óbreytt, eins og það kom frá neðri deild.