13.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Lárus H. Bjarnason:

Eg hafði ekki ætlað mér að tala í dag, af því eg bjóst við að fá tækifæri til að tala um fjárhaginn við framhald 1. umr. fjárlaganna. Eg bjóst ekki við að talað yrði alment um fjárhaginn við þessa 2. umr. fjáraukalaganna, en úr því hæstv. forseti hefir leyft það, þá vil eg gjöra örfáar athugasemdir við það sem talað hefir verið.

Það er ekki rétt hjá háttv. þm. Ísf., að gera upp á milli meiri hl. og minni hl. að því er sparnað snertir. Að minsta kosti er of snemt fyrir meiri hl. að hæla sér af sparnaði eins og nú stendur; fjárlagafrumvarpið, eins og það kemur frá Nd., fer ekki beint fram á sparnað. En það skal eg geyma að tala um þangað til það liggur fyrir. Eg er ekki samþykkur háttv. 4. kgk. þm. um það, að þakka forsjóninni eingöngu fyrir það, hve vel hefir rætzt úr fjárhag landsins síðustu ár. Eg vil gefa alþingi og stjórninni nokkra þökk líka. Þau hafa haft vaðið fyrir neðan sig og gætt fjárhagins vel. Tekjurnar hafa verið áætlaðar hóflega og útgjöldin að eins gengið til nauðsynlegra fyrirtækja. Það má óska landinu til hamingju ef núverandi meiri hluti gerir eins mikið til framfara í landinu, eins og gamli meiri hl. gerði.

Að því er Rangárbrúna snertir, finst mér það ekki hafa verið undirstrikað sem skyldi, að hér er um mannvirki að ræða, sem landsjóður á einn að standa straum af, en þó vill héraðið leggja fram mikinn hluta af kostnaðinum. Á undanfarandi þingum hefir verið gert svo mikið úr slíkum fjárframlögum, að fé hefir verið veitt til hreppavega og sýsluvega ef héruðin hafa lagt fram ríflegan skerf. Því meiri ástæða er til að veita fé til að byggja þessa brú, sem landsjóði ber að réttu lagi einum að kosta bygging hennar. Eg vona að þetta brúarmál verði ekki flokksmál hér í deildinni; það var ekki flokksmál í Nd., enda ættu fjárveitingar aldrei að vera flokksmál.

Að síðustu þakka eg háttv. framsm. fyrir, hve hlýlega hann mælti með fjárveitingunni til lagaskólans til bókakaupa.