30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

50. mál, kirknafé

Stefán Stefánsson (6. kgk. þm.):

Háttv. síðasti ræðumaður talaði mikið um, hver hætta gæti af þessu stafað, að því er fordæmin snertir. En það er vitanlegt, að þar er þó að eins að ræða um 2 landsjóðskirkjur, sem líkt stendur á með. — Hins vegar hefir söfnuðurinn tekið við kirkjunni beint með þessu skilyrði; og væri það því beint brot á samningi, ef stjórnin fer nú að taka sjóðinn aftur af þessari kirkju. Nú hefir einmitt reynst svo að söfnuðurinn hefir ekki viljað taka að sér þessa kirkju með öðru móti en því, sem í samningi þessum er til tekið. Eg skal ekki deila um það, hverja heimild stjórnin hafi haft til að gangast undir þau skilyrði, sem hér er um að ræða. En hins vegar hlýtur hver maður að sjá að sé samningurinn ekki haldinn, úr því hann er fram kominn á annað borð, þá er það hin mesta rangsleitni gagnvart söfnuðinum. — Hvað biskup segir því viðvíkjandi, að hann vilji sýna söfnuðinum mildi eða vægð, þá getur slíkt ekki komið hér til greina. Hér er að eins um það að ræða, hvort halda beri gjörðan samning, og annað ekki.