04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

51. mál, stofnun landsbanka

Sigurður Hjörleifsson:

Eg geri ráð fyrir að menn muni álíta að nefndin hafi breytt frumvarpinu til bóta; um það má mikið deila. Eg vil þó aðeins benda á eitt atriði, sem sé það ákvæði, að segja má bankastjórum upp með hálfs árs fyrirvara. Eg lít svo á, að þetta ákvæði sé mjög hættulegt. Það gæti haft þá afleiðingu, að erfitt yrði fyrir stjórnina að fá hæfa menn í þessa stöðu, þar sem þeir gætu búist við, að þeim yrði sagt upp þá og þegar með sex mánaða fyrirvara. Það er því minni ástæða til að hafa þetta ákvæði í lögunum, sem þau heimila ráðherra að víkja bankastjórunum frá. Eg vil því æskja þess, að breytingartill. við 1. gr. verði skift í tvent, þannig að sérstaklega sé borin undir atkvæði orðin »með sex mánaða uppsagnarfresti.» Eg skal benda á, að þó þetta falli burtu, raskar það ekki hugsun frumvarpsins að öðru leyti.